Sagan

Skagaströnd er forn verslunarstaður, en þorpið hefur byggst upp í kringum sjávarútveg. Þótt dönsk verslun hafi verið allan einokunartímann þá óx ekki byggð í kringum hana, en með auknum sjávarútvegi fór þorp að myndast. Þegar vélvæðing hófst í sjávarútvegi um 1920 kom vöxtur í þéttbýlismyndun á staðnum í tengslum við vélbátaútgerð og landvinnslu á sjávarafla. Þegar bygging síldarverksmiðju hófst svo 1945-46 fjölgaði mjög á staðnum og mikil bjartsýni ríkti um uppbyggingu og framfarir. Nokkur síldarvinnsla var um tíma, bæði söltun á plönum og bræðsla í verksmiðjunni. Síldin hvarf hins vegar að mestu leyti fyrir Norðurlandi skömmu síðar og varð því aldrei sá vaxtasproti sem væntingar stóðu til. Á árabilinu 1950-70 var því lítil byggðaþróun en með togaraútgerð sem hófst 1969 fór bjartsýni aftur vaxandi og með aukinni atvinnu bæði á sjó og í landvinnslu fjölgaði íbúum. Á árabilinu 1973-1983 varð talsverður vöxtur í húsbyggingum og gatnagerð. Þótt afkoma í sjávarútvegi væri mjög góð með tilkomu frystitogaraútgerðar upp úr 1980 þá varð ekki beinlínis mikil fjölgun atvinnutækifæra og upp úr 1990 fór heldur að halla undan fæti í landvinnslu sjávarafurða og smám saman lagðist sú vinnsla af.  

Það fer ekki mörgum sögum af upphafi byggðar á þessum slóðum, en þó segir Landnáma frá landnámsmönnunum á Skaga, þeim Hólmgöngu-Mána og Eilífi-Erni, sem námu land nyrst á Skaga og á honum austanverðum. Hins vegar segir Landnáma ekkert um landnám þar sem Skagaströnd stendur. Almennt er þó gert ráð fyrir að vestanverður Skagi hafi verið fullnuminn löngu áður en Landnáma var skrifuð.

Á seinni hluta 10. aldar bjó Þórdís spákona á bænum Spákonufell. Getið er um hana í Kormákssögu og Vatndælasögu og auk þess í þjóðsögum og sagt að hún hafi verið fjölkunnug og af því ýmsar sagnir. Skemmtilegust er þó sagan af auðæfum Þórdísar sem sagt er að hún hafi falið í kistu og komið fyrir á klettasyllu í Spákonufellsborg og að hún hafi mælt svo um „að sú kona skyldi eignast kistuna og öll þau auðæfi sem í henni væru, sem væri svo uppalin, að hún væri hvorki skírð í nafni heilagrar þrenningar, né nokkur góður guðstitill kenndur, og mundu þá gripirnir liggja lausir fyrir henni, og hún eiga hægt með að ljúka kistunni upp. En öllum öðrum skyldi sýnast kistan klettur einn og bergsnagi fram úr, þar sem lykillinn væri“ Fáum sögum fer af gullinu og hefur líklega enginn náð henni enda skilyrði sjálfrar spákonunnar ansi ströng og jafnvel hugsanlegt að þau hafi eitthvað bjagast í meðförum kynslóða á tíu öldum og því svari gullkistan ekki lengur nokkru áreiti. Spákonufellsborg er þó ákaflega fallegt fjall og skemmtilegt uppgöngu. 

Frá fornu fari var verslunarstaður við Spákonufellshöfða og var hann nefndur Höfðakaupstaður eða Höfði. Danskir kaupmenn nefndu hann Skagestrand og tóku þar upp nafnið á sjálfri strandlengjunni og var það ekki í eina skiptið sem nafnvenja danskra kaupamanna vann á hér á landi. Er einokunarverslunin komst á árið 1602 varð Skagaströnd einn af kaupstöðum hennar en smám saman dró úr þeirri verslun á 19. öld eftir að verslunarfrelsi komst á og nýir verslunarstaðir risu upp.