Pistill frá formanni Umf. Fram

Ágætu foreldrar og forráðamenn.

Ég vil fyrir hönd félagsins byrja á að þakka ykkur fyrir samstarfið það sem af er vetri.  Þátttaka barnanna í íþróttastarfi félagsins nú í haust hefur verið með ágætum.  Birna og Ágúst munu halda áfram að sjá um þjálfun á vegum félagsins en gerðar hafa verið lítilsháttar breytingar á stundatöflunni en þær hafa þegar verið auglýstar í Höfðaskóla. Því miður lítur ekki út fyrir að hægt verði að halda áfram að sækja sameiginlegar frjálsíþróttaæfingar á vegum USAH á Blönduósi, eins og gert var fyrir áramót, þar sem ekki hefur fengist þjálfari til að sjá um þær æfingar.  Við munum hins vegar halda okkar striki hér heima í staðinn.

 

Fyrirhugað er að byrja með skíðaferðir upp í Tindastól næsta laugardag (19. janúar) þar sem útlit er fyrir að nú sé kominn vetur og nægur snjór verði í fjallinu. Öllum er frjálst að nýta sér ferðirnar svo lengi sem pláss leyfir í rútunni. Gert er ráð fyrir að börn fædd árið 1996 og fyrr geti farið án fullorðinna en yngri börn þurfa að vera á ábyrgð einhvers fullorðins. LAGT VERÐUR AF STAÐ FRÁ ÍÞRÓTTAHÚSINU KL. 12:00 og miðað verður við að heimkoma verði á milli 17:00 og 18:00.  Hver og einn verður að sjá um nesti og lyftugjöld fyrir sig. Gert er ráð fyrir að ferðirnar haldi áfram með þessum hætti þangað til annað verður auglýst.

Svipað fyrirkomulag verður haft á innheimtu æfingagjalda nú á vormisseri eins og áður. Æfingagjöldin, 10.000 kr, eru aðgöngumiði  að öllum æfingunum þ.e. ekki þarf að greiða sér fyrir fótbolta og sér fyrir íþróttaskóla. Veittur verður 25% systkinaafsláttur fyrir börn frá sama heimili.   Rétt er að minna fólk á að nýta sér frístundakort sveitarfélagsins til endurgreiðslu á æfingargjöldum.   GJAFIR VERÐA VEITTAR  ÞEIM SEM GREITT HAFA ÆFINGAGJÖLDIN FYRIR 01.03.08.

 

Kveðja, Halldór G. Ólafsson

formaður Umf. Fram