Velkomin á Skagaströnd
SVEITARFÉLAGIÐ SKAGASTRÖND
www.skagastrond.is
Skagaströnd er einstakur bær. Þar er að finna lífstakt hins dæmigerða sjávarþorps þar sem höfnin er lífæðin og iðar af athafnasemi á góðum afladegi. Menningin er blómleg og lifandi.
Í Nes listamiðstöð dvelur fjöldi gestalistamanna sem auðga mannlíf og menningu.
Gönguleið hefur verið stikuð á tind Spákonufells, (640 m) og á Spákonufellshöfða er einnig vinsælt útivistarsvæði, en gönguleiðalýsingar hafa verið gefnar út fyrir þessar náttúruperlur.
Háagerðisvöllur er níu holu golfvöllur um fjóra kílómetra norðan við byggðina.
Bjarmanes er gamalt og sjarmerandi hús við sjóinn sem rekið er sem menningar- og samveruhús. Þar er ekki reglulegur opnunartími en ýmis viðburðir eru haldnir í húsinu. Hægt er að leigja húsið undir veislur, fundi eða aðra viðburði. Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband í gegnum Facebook síðu Bjarmaness.
Gistingu er hægt að fá hjá nokkrum aðilum, bæði á Salthús gistiheimili og góðum Airbnb gististöðum.
Tjaldsvæðið er afar þægilegt og nóg pláss fyrir tjaldvagna, húsbíla og hjólhýsi.
Sundlaugin er lítil og notaleg. Þar getur ferðalangur fundið ró og hvíld eftir áfanga dagsins.
Fjölbreytt úrval matvöru er að fá í Kjörbúðinni.
Árnes er elsta hús bæjarins. Það er dæmi um húsnæði og lifnaðarhætti á fyrri hluta 20. aldar.
Í Spákonuhofi er skemmtileg sýning um Þórdísi spákonu, sem uppi var á síðari hluta 10. aldar og fróðleikur um spádóma og spáaðferðir.
Í Sjoppan mín er boðið upp á þjónustu og næringu bæði fyrir farartæki og fólk.
Verið velkomin á Skagaströnd!