Um jarðgerð

Fróðleikur um jarðgerð

Jarðgerð felur í sér að lífrænn úrgangur er ummyndaður í næringarríkan jarðveg. Áætlað er að 30-50% af heildarþunga heimilssorps sé lífrænn úrgangur.

Margvíslegur ávinningur er af heimajarðgerð:

  • Lífræn efni og næringarsölt glatast ekki heldur mynda jarðvegsbæti, náttúrulegan áburð sem er auðvelt og ódýrt að framleiða.
  • Dregur úr mengun vegna flutnings, brennslu eða urðunar heimilisúrgangs.
  • Dregur úr þörf fyrir sorpmóttöku, sorpflutningar dragast saman og kostnaður vegna sorpeyðingar minnkar.
  • Heimajarðgerð gefur öllum möguleika á að vinna að umhverfismálum og bera persónulega ábyrgð á þeim.
  • Heimajarðgerð veitir fólki, ekki síst börnum skilning og þekkingu á náttúrulegu hringferli lífrænna efna.

Heimajarðgerð

Heimajarðgerð er meðhöndlun á lífrænum úrgangi tilvalin fyrir þá sem búa í dreifbýli og garðaeigendur í þéttbýli. Heimajarðgerð má í raun skipta í tvo flokka. Lægra stig og efra stig. Lægra stigið er þá jarðgerð á þeim lífrænu efnum sem falla til í garðinum, gras, greinar, afklippur plantna og einnig það sem fellur til í eldhúsinu úr plönturíkinu, grænmetisafgangar, kaffikorgur, brauð og þess háttar. Til þess að jarðgera á þennan hátt þarf ekki mikinn né dýran búnað. Einfaldur 2ja hólfa kassi er nóg, en í þessum kössum er niðurbrotið frekar hægt. Stærri greinar er betra að kurla því þær brotna hægt niður. Stoðefni eru nauðsynleg til þess að loftrými sé nægt í haugnum, en stoðefni er t.d. greinar eða timburkurl. Annað slagið þarf síðan að hræra í haugnum til þess að lofta hann. Það er vegna þess að örverurnar sem brjóta niður lífrænu efnin þurfa súrefni til sinna starfa, en þær stunda svokallað loftháð niðurbrot. Ef haugurinn verður of þéttur og súrefni kemst ekki að þá byrjar loftfirrt niðurbrot en þar starfa örverur sem kjósa súrefnislaust umhverfi. Loftfirrt niðurbrot er óæskilegt í jarðgerð vegna þess að við þær aðstæður hefst metan framleiðsla, en metan er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Einnig fylgir loftfirrtu niðurbroti vond lykt og súr safi. Þegar haugurinn er orðinn moldarkenndur er upplagt að nota hann sem jarðvegsbæti í garðinum.

Efra stigið í jarðgerð krefst betri búnaðar og meiri aðhlynningar. Jarðgerðarkassinn þarf að vera einangraður því að hitastigið þarf að ná allt að 60°C til þess að niðurbrotið gangi hratt og eyðing óæskilegra örvera nái fram að ganga. Í þessa einangruðu kassa er síðan látinn allur lífrænn úrgangur úr eldhúsi bæði úr dýra- og plönturíki. Niðurbrot á sér stað allan ársins hring í þessum kössum og þarf að lofta innihaldið reglulega og nota rétt magn af stoðefnum eins og trjákurli eða pappakurli.