Útivera og ferðalög

Spákonufellshöfði

Við sjóinn, yst í þéttbýlinu á Skagaströnd er Spákonufellshöfði. Hann er náttúruperla, tilvalinn staður til að njóta útiveru, útsýnis og náttúrufegurðar. Gönguleiðir um höfðann hafa verið merktar og eru flestar stuttar og auðveld ganga. við þær hefur víða verið komið fyrir upplýsingaskiltum um fugla og plöntur.

Þó Spákonufellshöfði sé ekki hár er afar víðsýnt af honum og blasa við húnvetnsk fjöll og dalir og handan Húnaflóa sjást Strandir og Strandafjöllin. Spákonufellshöfði er kenndur við jörðina Spákonufell og samnefnt fjall ofan við en þar bjó hin nafnkunna Þórdís spákona á 10. öld. Höfðinn er úr stórgerðu stuðlabergsbasalti, líklega gamall gostappi. Hann er mjög sæbarinn og sér þess víða merki. Rétt við Höfðann var hinn gamli verslunarstaður Húnvetninga, Höfðakaupstaður. Mælt er að á Höfðanum hafi fyrr á tímum verið fallbyssa sem skotið var úr á hverju sumri þegar kaupskipið kom frá Danmörku. Fallbyssan er horfin og var komið til Þjóðminjasafnsins.

Hólsnef er nafnið á syðsta enda Höfðans. Þess skal þó geta að heimildum ber ekki saman. Bæði syðsti og nyrsti endi Höfðans hafa einnig verið kallaðir Höfðatá. Stóra víkin sem gengur inn í höfðann að vestanverðu, ber nokkur nöfn, Vækil(s)vík, Vékelsvík, Vælugilsvík. Engin skýring er á nöfnunum. Hér verður hún nefnd Vækilvík, það er mest notað nú á dögum. Sagnir eru um að þarna hafi fyrsti verslunarstaðurinn verið og jafnvel kaupskip legið bundin. Um þar síðustu aldamót töldu gamlir menn sig hafa séð þar ummerki eftir festarhringi. Fagridalur eða Leynidalur eru nöfnin á dældinni austast á Höfðanum.

Við norðurenda dalsins er tignarlegur klettur, Arnarstapi. Arnarsvipurinn sést vel, t.d. á hæðinni norðan við Reiðingsflötina. Hrafnar verpa á klettinum en ekki ernir. Við suðurenda Fagradals er bærinn Laufás en austan dalverpisins er Réttarholtshæð nefnd eftir bænum sem stendur austan höfðans. Efst á hæðinni er Spánska dys. Mun spænskur sjómaður, sem lést hér við land, hafa verið heygður þarna og staðurinn valinn útsýnis vegna. Neðan hæðarinnar var áður fyrr skilarétt Skagstrendinga, Landsendarétt, hlaðin úr grjóti, en er nú hrunin og hafið hefur að hluta brotið land undan henni. Bærinn Réttarholt er þarna rétt hjá. Þegar hafnargerð stóð sem hæst á fjórða og fimmta áratugnum var tekið það ráð að sprengja grjót úr austurhlíð Höfðans og nota til uppfyllingar. Það mæltist misjafnlega fyrir. Sagt er að álfkona hafi vitjað heimamanns í draumi. Var hún ærið þungbúin og sagði að verið væri að skemma álfabyggðina í Höfðanum. Mælti hún að næstu tuttugu árin yrðu heimamönnum erfið. Hvort það rættist skal ósagt látið en eitt er víst að síldin fór og það var ekki fyrr en undir 1970 að aftur tók að birta verulega í atvinnumálum. Því trúa einnig margir síðan að ekki megi kenna neinn hlut, hvorki skip, farartæki né annað við Höfðann, því þá farnist illa. Tjaldklauf er nafnið á geil upp í Höfðann frá svokölluðu Skagastrandartúni. Áður fyrr tjölduðu bændur þar í kauptíðum. Gefinn hefur verið út bæklingur á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku um gönguleiðirnar bæði á Spákonufellhöfða og fjallið Spákonufell. Bæklinginn má nálgast hér.

Gönguleiðir á Spákonurfell

Fjallið Spákonufell, 646 m, er svipmikið og áberandi frá bænum. Efst er klettabelti sem nefnist Spákonufellsborg eða Borgarhaus. Uppi er um fjögurra hektara mosavaxin slétta. Þar er varða og í henni kistill með gestabók. Spákonufell er að mestu úr móbergi en Borgarhausinn er úr grágrýti. Margir möguleikar eru til að ganga á Spákonufell. Vinsælsta gönguleiðin liggur frá golfvellinum við Háagerði. Gengið er upp hlíðar í áttina að norðuröxlinni sem er fyrir neðan Molduxa. Þaðan liggur leiðin síðan upp norðuröxlina og um Leyningsdal. Stefnt er upp í lítið skarð norðaustan við Borgarhausinn. Þessi leið sem er frekar létt og auðveldasta leiðin upp hefur verið stikuð og slóðir eru orðnar nokkuð greinilegar.

Önnur gönguleið liggur upp frá skíðaskálanum sunnan megin fjallsins. Leiðin er ekki merkt en gengið er af augum upp hrygginn og melana á honum og að hömrunum. Þarna þarf að fara varlega því klettarnir eru lausir í sér en uppgangan er þó ekkert erfiðari en t.d. að fara upp hamrabeltið í Esju. Til viðbótar má nefna skemmtilega gönguleið í kringum Spákonufell en það tekur um það bil 6 klukkustundir að ganga hana. Einstaklega víðsýnt er af Spákonufellsborg í góðu veðri. Í vestri sér yfir Húnaflóa allt til Strandafjalla og Drangajökuls. Kenna má Geirhólma (Geirólfsgnúp) og í góðu skyggni má greina Hornbjarg. Til suðurs sér inn til Húnafjarðar og Vatnsness fyrir botni Húnaflóa og inn til húnvetnsku dalanna og fram á heiðar. Í austur sést til Skagafjarðar og allt til Tröllaskaga. Í norðri sér út eftir flötum Skaga þar sem blár himinn speglar sig í fjölmörgum tjörnum og vötnum.

Ökuleiðin fyrir Skaga

Þeir eru ekki margir sem hafa ekið fyrir Skaga enda ekki beint alfararleið. Ökuferðina má byrja á Skagaströnd eða jafnvel Blönduósi, eins er hægt að byrja austan megin, þ.e. á Sauðárkróki. Hér er getið um nokkra staði á leiðinni og er lagt af stað frá Skagaströnd og ekið norður fyrir Skaga og inn Skagafjörð að Laxárdal. Þar skilja leiðir. Hægt er að halda áfram inn að Sauðárkróki og þaðan um Varmahlíð og Vatnsskarð og vestur í Húnavatnssýslu. Hin leiðin er svokölluð Þverárfjallsleið, mjög góður vegur með varanlegu slitlagi. Þverárfjallsvegur kemur á Skagastrandarveg miðja vegu milli Skagastrandar og Blönduóss. Skaginn er frekar lágur. Nyrðri hluti hans er nánast flatur en hærra er eftir því sem sunnar dregur. Á Skagaheiði eru fjölmörg fiskivötn og er góð silungsveiði í flestum þeirra. Veiðileyfi eru seld á mörgum bæjum. Hof heitir kirkjustaður norðan við Skagaströnd. Þar eru fornar tóttir sem nefnast Goðatóttir og gætu verið af hofi. Á Hofi fæddist Jón Árnason (1819-1888) sem þekktastur var fyrir söfnun þjóðsagna sem við hann eru kenndar. Króksbjarg er skammt norðan við Hof og liggur þjóðvegurinn þar upp. Björgin eru ekki há, aðeins um 40 til 50 m en byrja skammt fyrir norðan Hof og ná út að Kálfshamarsvík. Vegurinn liggur með bjargbrúninni á kafla og við svonefnda Fuglatjörn er útsýni gott af bjarginu norður til Kálfshamarsvíkur og þar má sjá Fossá falla í fossi af bjargbrúninni beint í sjó fram. Hafnir er fornt stórbýli, nær nyrst á Skaga. Þar eru Hafnabúðir, gömul verstöð, einkum hákarlafangara. Gamlir malarkambar eru hjá Höfnum og eru þeir merki um hærri sjávarstöðu við ísaldarlok. Mikill reki er þarna á fjörum. Selvíkurtangi er eins og nafnið ber með sér þekktur fyrir selalíf. Þar flatmaga selir á skerjum og virða fyrir sér þessa undarlegu ferðamenn sem stara stórum augum á móti. Austan megin á Skaga er Keta, gamall kirkjustaður og fornt höfðból enda góð sjávar- og hlunnindajörð. Ketubjörg eru þar fyrir sunnan, forn eldfjallsrúst eða gígfylling úr stuðluðu grágrýti.

Kálfshamarsvík

Einn af athyglisverðustu stöðunum á ökuleiðinni fyrir Skaga er Kálfshamarsvík. Hún er nokkuð opin og á Kálfshamarsnesi er stór viti sem byggður var 1939. Við vitann er ævintýralegt umhverfi. Ægifagurt stuðlaberg er í sjávarberginu, lóðrétt og lárétt í bogum og beygjum svo undrum má sæta. Talið er að stuðlabergið hafi myndast fyrir um tveimur milljónum ára. Á árunum 1910 til 1930 myndaðist þarna lítið sjávarþorp sem nefnt var eftir víkinni. Þegar flest var, voru um eitt hundrað manns búsettir í víkinni. Ástæðan var einföld, þarna var góð hafnaraðstaða frá náttúrunnar hendi og stutt á gjöful fiskimið. Einkum var róið að sumarlagi og fram til jóla en þá var algengt að karlar héldu til Suðurnesja á vertíð. Upp úr 1930 hnignaði byggðinni tiltölulega hratt og tíu árum síðar höfðu flestir flust í burtu. Flestir fóru inn á Skagaströnd. Húsarústir eru enn sjáanlegar í Kálfshamarsvík og hafa þær verið merktar með nöfnum húsa sem þar stóðu ásamt nöfnum ábúenda. Einnig hefur verið sett upp upplýsingaskilti með korti fyrir ferðamenn.

Golfvöllurinn

Háagerðisvöllur er 9 holu golfvöllur í stórfallegu umhverfi aðeins um fjóra kílómetra norðan við bæinn. Upplýsingar í símum 892 5089, 452 2895, 862 5089.

Gönguleiðir

Þau eru góður ferðafélagi, gönguleiðakortin fyrir Austur Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Kortin eru tvö. Annað heitir „Skagi, milli Húnaflóa og Skagafjarðar“ og hitt „Frá Skagafirði til Vatnsdals“. Gönguleiðir eru merktar inn á kortin með punktalínum og greint er milli stikaðra og óstikaðra leiða. Á bakhliðinni eru leiðarlýsingar og skemmtilegur fróðleikur um áhugaverða staði á gönguleiðunum og á svæðinu almennt. Nefna má að á gönguleiðunum eru merkt inn GPS hnit, sem er nýjung í kortagerð á Íslandi. Kortin eru tilvalin fyrir þá sem áhuga hafa á gönguferðum, því margar góðar leiðir eru í boði. Sem dæmi má nefna gönguleiðirnar: Spákonufellsborg (fjallið ofan við Skagaströnd), Kambadalur – Hallárdalur og um Fjallsöxl. Fleiri frábærar gönguleiðir mætti nefna á Skaga en þeir sem áhuga hafa fá nánari upplýsingar á gönguleiðakortunum. Kortin eru seld á 500 kr. og fást í bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu og í verslunum og á bensínstöðvum í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði.

Veiði á Skagaheiði

Skagaheiði er náttúruperla sem lætur lítið yfir sér á landakorti en býr yfir náttúrutöfrum og fjölmörgum útivistarmöguleikum. Þegar kemur norður fyrir Skagastrandarfjöll er landslagið tiltölulega lágt og einkennist af klettaborgum og ávölum ásum sem mótast hafa af framskriði ísaldarjökuls. Inn á milli hefur jökullinn skilið eftir lægðir og hvilftir í landslagið þar sem sitja tjarnir og vötn sem mörg eru full af iðandi lífi, veiðivötn. Veiði er víða góða á Skaga en aðgangur að vötnunum misjafnlega góður. Að sumum vatnanna er akfært öllum bílum að öðrum er jeppavegur og að enn öðrum verður einungis farið á tveimur jafnfljótum með mal sinn og annan búnað í bakpoka. Í bæklingi sem hefur verið gefinn út um veiðina er safnað grundvallarupplýsingum um veiðivötnin á Skaga. Í honum er að finna hverjir selja veiðileyfi, hversu langt er að vatni frá Skagaströnd, aðkoma að vatninu, stærð þess og ekki síst hvers konar veiði er von. Í bæklingnum er kort af Skaga og þar má finna helstu leiðir, örnefni, jarðamörk og mörk almenninga. Í ritinu er að finna upplýsingar um nærri fjörtíu vötn. Gott kort fylgir og á því eru dregin jarðarmörk svo enginn þurfi að villast um eignarhald á vötnunum en það segir oftast til um hvar leita eigi eftir veiðileyfum. Í texta er getið um fimm grundvallaratriði um hvert vatn: Veiðileyfi, vegalend frá Skagaströnd, aðkomu, veiði og stærð vatns. Einnig hefur verið reynt að birta myndir af sem flestum vötnum.