Frístundakort fyrir grunnskólanema

I. Almennt um frístundakortið

Foreldrar barna með lögheimili á Skagaströnd eiga rétt á 25 þúsund króna styrk, fyrir hvert barn á grunnskólaaldri, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Frístundakortin taka gildi 1. janúar ár hvert og gilda í eitt ár. Skil á gögnum vegna frístundaþátttöku síðastliðins árs er í síðasta lagi 31. janúar næsta árs. Eftir það fellur réttur þess árs niður. 

II. Tilgangur

Tilgangur frístundakorta er að hvetja börn og unglinga til þátttöku í hvers konar íþrótta- og æskulýðsstarfi og að jafna möguleika foreldra til að börnum sé það mögulegt.  

III. Gildistími

Réttur til frístundakorts gildir í eitt ár og tekur gildi 1. janúar ár hvert. Skil á gögnum vegna frístundaþátttöku ársins er í síðasta lagi 31. janúar næsta árs. Eftir það fellur réttur þess árs niður. Ákvörðun um frístundakort er bundin afgreiðslu fjárhagsáætlunar hvert ár. 

IV. Hvaða frístundastarf

Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Skilyrði til að frístundakort nái til endurgreiðslu á félags- og tómstundastarfi er þau að starfsemin sé viðurkennd af sveitarstjórn og um hana séu veittar allar þær upplýsingar sem óskað er eftir.

V. Hverjir eiga rétt

Foreldrar með lögheimili á Skagaströnd sem eiga börn á grunnskólaaldri eiga rétt á frístundakorti, fyrir hvert barn, til niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi. Þegar greitt hefur verið fyrir það námskeið eða starf sem grunnskólabarn vill eða hefur tekið þátt í, er farið með kvittunina á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem sótt er um frístundakort. Fjárhæð sem nemur verðgildi frístundakorts verður síðan endurgreidd vegna viðurkennds frístundastarfs. 

Nánari upplýsingar veitir:

Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri
Skrifstofusími 455-2700