Annasamri íþróttahelgi lokið

Hér eru loksins myndir frá Goggamóti í frjálsum íþróttum í Mosfellsbæ, KB bankamóti í knattspyrnu í Borgarnesi og Bikarkeppni FRÍ 2 deild í frjálsum á Sauðárkróki. Skagstrendingar áttu þar fulltrúa helgina 24/6 – 26/6 sem allir stóðu sig með miklum sóma.

Stefán Velemir tók þátt í Goggamótinu í Mosfellsbæ sem haldið var í 15 sinn. Því miður fannst ekki mynd af Stefáni en á myndinni sjáum við aðra keppendur frá USAH og þjálfarann Steinunni Huldu Magnúsdóttur við keppni í spjótkasti.

Sæþór, Alex Már, Elías Kristinn og Guðjón Páll kepptu sem Hvöt í 5 flokki í Borgarnesi. Með þeim voru tveir strákar frá Blönduósi og einn úr sveitinni og Ólafur Benediktsson þjálfari Hvatar. Glöggir menn sjá hins vegar að strákarnir eru í búningum Umf. Fram. Þessir strákar gerðu sér lítið fyrir og gerðu eitt jafntefli en unnu 5 leiki og þar með sinn flokk í mótinu.

Á myndinni frá mótinu á Sauðárkróki má sjá Sigurrós Ósk, Elna, Laufey Inga, og Kristján Heiðmar með Sunnu Gestsdóttur. Sunna keppti fyrir USAH í nokkrum greinum en okkar fólk fór til að læra og þau voru starfsmenn við ýmsar greinar á mótinu.

Skagstrendingar geta verið stoltir af þessum ungu fulltrúum sínum á íþróttavellinum.

 

Íþróttafulltrúi Höfðahrepps