Út er komin bókin „Sjósókn frá Skagaströnd og Vélbátaskrá 1908-2010", sem Lárus Ægir Guðmundsson hefur unnið að undanfarin misseri. Í henni er skrá um alla vélbáta sem hafa átt heimahöfn á Skagaströnd frá árinu 1908, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur frá Danmörku og fram til 2010.
Í bókinni eru um 220 bátar og má sjá myndir af flestum þeirra ásamt upplýsingum um smíðaár, smíðaefni, stærð og vélargerð sem og eigendasögu og hvenær þeir voru keyptir eða seldir til og frá Skagaströnd.
Jafnframt er að finna fjölmargar frásagnir af ýmsum atburðum sem tengjast fyrrgreindum bátum eins og eftiminnilegar sjóferðir, strönd og slysfarir. Einnig stutt ágrip af útgerð báta frá Skagaströnd fyrr á öldum og greint frá helstu útgerðarfélögum síðustu áratugina. Þá er hér einnig að finna upplýsingar um bátasmíði fyrr og síðar og frásagir sjómanna eldri sem yngri varðandi margt sem upp kom í dagsins önn. Bókin er því svolítið ágrip af ýmsum þáttum sem tengjast útgerðarsögu Skagstrendinga í rúmleg heila öld.
„Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908-2010“ verður boðin til sölu á næstu dögum og kostar bókin 3000 kr.
Ef til vill er þetta hin ágætasta jólagjöf fyrir marga þá sem komið hafa nálægt sjávarútvegi á Skagaströnd og aðra þá sem kunna að hafa áhuga á sögulegum fróðleik um þetta efni.
Útgáfan er styrkt af Mennigarráði Norðurlands vestra