Fjarskiptarof í sveitarfélaginu

Vakin er athygli á eftirfarandi bókun í fundargerð sveitarstjórnar frá 15. janúar 2025 vegna fjarskiptarofs sem varð aðfaranótt miðvikudags:

 

Sveitarstjóri fór yfir verkefni sem unnin hafa verið á vettvangi sveitarfélagsins frá síðasta fundi.

Í máli sveitarstjóra kom fram að í nótt hafi í annað skiptið á stuttum tíma allt fjarskiptasamband rofnaði við Skagaströnd vegna strengslits á stofnstreng milli Skagastrandar og Blönduóss. Staðan er þannig að það eru um 15 sveitarfélög á Íslandi sem eru eintengd með ljósleiðarastofnstreng við fjarskiptakerfi landsins. Það hefur þær afleiðingar að þegar sá ljósleiðarastrengur rofnar þá rofnar að sama skapi allt samband við umheiminn. Þetta hefur eðlilega mikil áhrif á daglegt líf og öryggi þeirra samfélaga sem við þetta búa. Það er því mjög mikilvægt að þau sveitarfélög sem eru í þessari stöðu sameinist og vinni með yfirvöldum að því að tryggja örugg fjarskipti í öllum þéttbýlum landsins. Með því að byggja upp tvítengingar geta sveitarfélögin haft varaleið þegar fyrsta tenging rofnar, sem tryggir stöðugleika og öryggi í fjarskipum.

Óskað hefur verið eftir fundi með innviðaráðuneytinu og Fjarskiptastofu til þess að ræða stöðuna en hið opinbera verður að koma að borðinu til þess að hægt verði að leysa þessi mál sem fyrst. Þann 19. september sl. staðfestu Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026. Ráðast þyrfti í sambærilegt verkefni til að klára að tvítengja þau sveitarfélög á landinu sem eftir standa.

Sveitarstjóri hefur verið í góðu sambandi við Mílu vegna þess rofs sem hefur orðið á fjarskiptum í sveitarfélaginu sem litið er alvarlegum augum. Á meðan tvítengingu hefur ekki verið lokið eru sveitarfélagið og Míla að skoða í sameiningu að ráðast í tilraunaverkefni sem felur í sér að setja upp Starlink þjónustu í sveitarfélaginu sem rekin er af SpaceX og býður upp á internet í gegnum gervihnetti. Þjónustan mun þá virka sem varaleið fyrir net og farsíma á Skagaströnd ef að strengslit verður að nýju. Fundað verður vegna málsins í næstu viku með þar til bærum aðilum.

 

Fundargerð sveitarstjórnar má finna hér.