30.06.2004
Gamli skólinn, Bjarmanes var vígður eftir gagngerar
endurbætur laugardaginn 19. júní sl. Húsið er allt
nýuppgert, utan sem innan. Fjöldi manns mætti við
vígsluna í blíðskaparveðri og þáðu léttar veitinga um leið
og húsið var skoðað. Við vígsluna var einnig opnuð
sýning á ljósmyndum Guðmundar Kr. Guðnasonar.
Lárus Ægir Guðmundsson, formaður byggingarnefndar
hússins afhenti Adolf H. Bendsen, oddvita húsið með
táknrænum hætti. Í máli hans kom fram að húsið var
byggt 1912 sem verslunarhús og hafi þjónað því
hlutverki til ársins 1921. Ári síðar hófst skólahald í
húsinu sem stóð allt fram til ársins 1958. Samhliða var
húsið notað til ýmissa þarfa. Þar voru íbúðir og
vistarverur einstaklinga en jafnframt var húsið
samkomuhús og fundarstaður. Eftir að skólahaldi lauk
var húsið gert að íbúðarhúsi en varð seinna notað sem
afgreiðsla sýslumanns og aðstaða lögreglu auk þess
að þar voru varðveittir gripir Sjóminja- og sögusafns
Skagastrandar.
Við vígslu hússins kom fram að það er eigandi hússins
Höfðahreppur sem stóð fyrir endurbyggingu þess en
fékk myndarlegan stuðning úr Húsafriðunarsjóði. Einnig
kom fram að Jon Nordsteien arkitekt hafi annast allar
teikningar og hönnun, Flosi Ólafsson, Línuhönnun hafi
séð um verkfræðilega þætti en Helgi Gunnarsson,
trésmíðameistari haft yfirumsjón með framkvæmdum.
Endurbygging hússins þykir hafa tekist sérstaklega vel
og húsið er nú allt hið glæsilegasta.