Skagstrendingar stofnuðu Gleðibanka í gærkvöldi að viðstöddum fjölda manns. Allir sem einn staðgreiddu þeir hlut sinn og gekk afgreiðslan afar fljótt fyrir sig enda var enginn hörgull á greiðslu. Í dag gengu svo umboðsmenn Gleðibankans í fyrirtæki og keyptu allir sem ekki gátu mætt á stofnfundinn.
Fyrsta verk Gleðibankans var svo að gefa út svokallað Gleðikort. Fyrir það fæst veglegur afsláttur í helstu verslunum, veitingahúsum, söluskálum og bensínstöðvum á Skagaströnd, en þau eru Kántrýbær, Söluskálinn, Olís og matvöruverslunin Samkaup Úrval. Líkur benda til þess að allir Skagstrendingar hafi nú fengið Gleðikort og muni nota það á morgun en þá er Afsláttardagurinn mikli á Skagaströnd og þann dag gildir kortið.
Eftir stofnun bankans var gengið til gleðistarfa. Sýndar voru myndir frá skeri nokkru sem er enn kaldara en klaki vor, sagðar voru örskopsögur af Skagstrendingum, leikin var syrpa af jólalögum og í boði Sjóvá fengu gestir kaffi og kökur eins og hver gat í sig látið. Þess má hér geta að engin krosstengsl eru á milli Gleðibankans og Sjóvá en þó er meira en hugsanlegt að fyrrnefnda fyrirtækið reyni að taka hið síðarnefnda yfir áður en langt um líður.
Gjaldmiðill Gleðibankans er bros. Hluturinn í bankanum er þannig virtur á eitt þúsund bros en gangvirðið er að öllum líkindum miklu hærra og tala menn um fjölda brosa, jafnvel hlátra í því sambandi.
Það óvenjulega við hlutabréf í Gleðibankanum er að hann er ævarandi bundin þeim sem keypti hann. Arðurinn er skattfrjáls en engu að síður framtalsskyldur. Gerð skal grein fyrir eigninni á blaðsíðu 1 á framtali, lið 1.4.
Þar skal rita eftirfarandi texta:
"Undirritaður á 1.000 bros í Gleðibankanum en það eru ómetanleg auðæfi og algjörlega skattfrjáls samkvæmt heilbrigðri skynsemi."
Síðan skal bæta við broskalli :-) og helst lita hann gulan.
Gleðibanki Skagastrandar getur ekki orðið gjaldþrota (það var að vísu líka sagt um gömlu bankana!). Bankinn hefur grínlausa milligöngu um varðveislu verðmæta, hvort heldur þau eru í gríni, skopi eða öðrum gleðigjaldeyri. Hann annast gleðivísitölu, gætir að gengi gríns miðað við aðra miðla og gefur út gleðikort, gleðipillur og gleðibréf af öllu tagi fyrir gleðimenn og konur.
Í trúnaði sagt er einlægur tilgangur stofnenda Gleðibankans á Skagaströnd að hvetja til bjartsýni. Þrátt fyrir alvarlega stöðu þjóðarinnar telja þeir ekki ástæðu til að leggjast í þunglyndi eða berja á náunganum þrátt fyrir smávægilegan skoðanaágreining á þeim málum sem nú er sem mest rætt um.
Við þurfum að vera bjartsýn, sýna hverju öðru velvilja og það er fyrst og fremst gert með því að fólk sýni tilfinningar sínar og brosi, það eykur viðskiptin við bankann. Gleðibankinn er fyrst og fremst spurning um hugarfar. Skagstrendingum finnst nauðsynlegt að geta litið upp frá bölsýni og barlómi og horft á það sem eykur þor og bjartsýni. Nú eru líka að koma jól og brátt fer sól að hækka á lofti.
Gleðibankinn er vettvangur til að láta sér líða vel enda heimsendir ekki í nánd eftir því sem best er vitað. Hlutabréfin eru stæling á því sem við getum átt í veraldlegum eignum, því sem ryðgar bara og fúnar - það er ekkert grín ... Hins vegar er ekkert eins og gleðin sem á sína bestu birtingarmynd í einlægu brosi.
Þessu öllu til staðfestingar þá rituðu stofnendur Gleðibankans þau orð sem þeim finnst vera mest íþyngjandi á litla miða. Þetta voru m.a. orð eins og kreppa, þunglyndi, bankar, skuldir, milljarðar, gjaldþrot, spilling, atvinnuleysi, útrás og verðbólga. Miðunum var síðan troðið í fallbyssu Skagstrendinga og í lok fundarins var skotið úr henni. Brunnu þar upp miðarnir og þar með voru vandamálin fyrir bí - þeim var beinlínis skotið út í veður og hvassan vind.
Fundu Skagstrendingar allir sem einn að þeim var mikið létt eftir þennan gjörning og sneru léttir í lund heim á leið.