Næsta kvikmynd og jafnframt sú síðasta fyrir jól verður sýnd í Kántrýbæ n.k. föstudagskvöld kl 21:30.
Um er að ræða Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson.
Nánar um myndina:
Hannes er kominn á eftirlaun eftir 37 ára starf sem húsvörður í skóla þar sem nemendum stóð ætíð stuggur af honum. Hann veltir því nú fyrir sér hvað hann eigi að taka sér fyrir hendur og efst á listanum er að gera upp gamlan bát sem hann á. Annað sem Hannes myndi gjarnan vilja laga er samband hans við tvö uppkomin börn sín, en það samband er ekki upp á marga fiska. Eina ástæðan fyrir því að hann hittir þau endrum og sinnum er að þau koma stundum að heimsækja móður sína, Önnu. Við föður sinn hafa þau hins vegar lítið að tala og enn minni áhuga á því. Kvöld eitt þegar þau Hannes og Anna eru að snæða kvöldverð fær Anna heilablóðfall. Eftir að hún er flutt á sjúkrahús og rannsökuð kemur í ljós að hún mun sennilega aldrei komast til heilsu á ný. Í stað þess að skilja Önnu eftir í höndum lækna og hjúkrunarfólks ákveður Hannes að fara með hana heim þar sem hann tekur til við að hjúkra henni og sjá henni fyrir því sem hún þarf. Um leið fær hann sjálfur nægan tíma til að skoða sjálfan sig og eigið líf og kemst að því að það er aldrei of seint að taka út þroska og laga það sem aflaga hefur farið.
Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og verið valin á ýmsar kvikmyndahátíðir um gjörvallan heim ásamt því að vinna fjölmörg verðlaun, m.a. á spænsku kvikmyndahátíðinni SEMINCI. Eldfjall verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012.
Miðaverð 1.250 kr
--
Jacob and Andrea Kasper
Nes Artist Residency
Fjörubraut 8
545 Skagaströnd
Iceland