Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að Sjávarlíftækisetrið á Skagaströnd fái tuttugu milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári en breytingartillögur meirihluta nefndarinnar voru lagðar fyrir Alþingi í dag. Einnig er lagt til að Heimskautagerðið á Raufarhöfn fái tuttugu milljónir króna svo og samvinnuverkefni sem Verið á Sauðárkróki, Matís og Háskólinn á Hólum standa að.
Þá er lagt er til að framlag ríkisins til Háskólans á Akureyri hækki um 75 milljónir króna og verði þá tæpar sextán hundruð milljónir og að framlög til Fjölbrautarskóla Norðlands vestra hækki um fimmtán milljónir og verði þá um 340 milljónir króna.
Hvalamiðstöðin á Húsavík fær tíu milljónir svo og Gásir í Eyjafirði, lifandi miðaldakaupstaður. Þá fær Landsmót UMFÍ á Akureyri fimmtán milljónir og átta milljónir eru eyrnamerktar svifryksmæli á Akureyri. Dimmuborgarstofa, Spákonuhof á Skagaströnd, Örnefnafélagið Snókur á Siglufirði, fjölnota menningarhús í Grímsey og Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi fá svo fimm milljónir hvert og Jarðskálftasetrið á Kópaskeri fær sex milljónir svo eitthvað sé nefnt. Heimild: ruv.is
Höf. rzg
Tekið af vefsíðunni www.huni.is