Bræla er á miðum og höfnin á Skagaströnd full af skipum af öllum stærðum og gerðum. Telst mönnum svo til að um 26 fley liggi nú í höfninni.
Frystitogarinn Arnar kom inn á sunnudaginn. Grindvíkingurinn Páll Jónsson GK7 liggur inni, svo og Valdimar GK195, Hellnavík SU59 og fleiri og fleiri.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær og sést á þeim að þröngt er á þingi en unnið við viðhald og lagfæringar og svo er lokið við að ísa og ferma flutningabíla sem hverfa á braut með aflann.