99. ársþing USAH fór fram um helgina.

99. ársþing USAH fór fram sunnudaginn 13. mars á Húnavöllum, á þingið mættu 32 fulltrúar frá aðildarfélögunum. Auk þeirra mættu tveir gestir, Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ og Þórey Edda Elísdóttir, fulltrúi ÍSÍ. Fjórar tillögur lágu fyrir á þinginu sem allar voru samþykktar eftir breytingar í nefndum, var þingið nokkuð starfssamt og umræður þónokkrar.

Mál sem meðal annars komu upp á þinginu voru Húnavökuritið og Stefnumótun USAH.
Húnavökuritið, ákveðið hefur verið að gera tilraun með dreifingu og sölu ritsins, verður hún send á öll heimili í sýslunni auk þeirra sem voru áskrifendur fyrir og í Húnvetningafélagið í Reykjavík. Mun hún með þessu móti lækka í verði en dreifast á fleiri heimili og vonumst við til að þessi tilraun takist vel og auki áhuga ungs fólks að skoða ritið.
Á 98. ársþingi USAH var ákveðið að nú skyldi farið að vinna í stefnumótun USAH og voru Auðunn Sigurðsson, Sigríður Gestsdóttir og Steinunn Hulda Magnúsdóttir skipuð í stefnumótunarnefnd, núna á þinginu kynntu þau fyrir okkur stefnumótun USAH, eftir þing og fram í október mun svo stjórn USAH og aðildarfélög fara yfir hana og skila inn athugasemdum sem áfram skipuð stefnumótunarnefnd mun vinna í fyrir næsta þing, þá mun vonandi liggja fyrir tillaga að stefnumótun USAH.

 

Þórey Edda Elísdóttir, fulltrúi ÍSÍ, ávarpaði þingið og minnti á ýmis góð málefni sem gott væri að íhuga, svosem meira samstarf milli USAH og USVH, verkefni sem eru í gangi, t.d. hjólað í vinnuna og lífshlaupið sem henni finnst endilega að við þurfum að reyna að virkja bæði hér og hjá þeim í USVH og reyna að koma upp einhverri keppni á milli og reyna að virkja bæði börn sem fullorðna í að hreyfa sig og lifa heilbrigðu lífi. Að ávarpi loknu veitti hún Aðalbjörgu Valdimarsdóttir gullmerki ÍSÍ og Hafdísi Vilhjálmsdóttur silfurmerki ÍSÍ, einnig fékk Valgerður Hilmarsdóttir silfurmerki ÍSÍ en var hún ekki á staðnum.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, ávarpaði þingið og ræddi einnig um mörg verkefni sem eru í gangi í samfélaginu, svo sem Hreyfivikuna sem verður núna í maí. Þakkaði fyrir starf USAH við Landsmót 50+ og vildi ekki síður þakka sveitarfélögunum sem stóðu að mótinu fyrir sinn stuðning, hann væri ómetanlegur og án þeirra væri ekki hægt að halda svona mót. Minnti hann á Unglingalandsmótið sem haldið verður í Borgarnesi í sumar, Landsmót 50+ sem haldið verður á Ísafirði í byrjun sumars og Landsmótið, sem ákveðið hefur verið að halda á Sauðárkróki árið 2018. Að ávarpi loknu veitti hann Hafdísi Vilhjálmsdóttur og Pétri Péturssyni starfsmerki UMFÍ og Aðalbjörgu Valdimarsdóttur gullmerki UMFÍ.

 

Íþróttamaður ársins 2015 hjá USAH var Snjólaug María Jónsdóttir, úr Skotfélaginu Markviss. Hún hefur staðið sig afskaplega vel á síðastliðnu ári í haglagreininni Ólympískt Skeet. Snjólaug keppti á sínu fyrsta móti erlendis á árinu og setti þar glæsilegt Íslandsmet, sem er aðeins 5 stigum frá Ólympíulámarkinu, fór hún upp um tvo flokka í sinni grein á tímabilinu og er fyrst kvenna hérlendis frá upphafi til að ná fyrsta flokks skori í þessari skotgrein.

 

Hvatningarverðlaun USAH, sem fyrrum formenn USAH gáfu á 100 ára afmæli sambandsins og á að veita árlega, voru veitt í fjórða sinn og var það ungmennafélagið Fram sem hlaut bikarinn. Fram hefur ávallt staðið sig vel í barna og unglingastarfi, þau reyna að hafa fjölbreytni til staðar og að börn geti notið sín og haft gaman í þeirri íþrótt sem þau ákveða að iðka.

 

Ungmennafélagið Fram fagnar á þessu ári sínu 90 ára afmæli og fengu platta og blóm í tilefni afmælisins.

 

Breyting var á stjórn USAH, Aðalbjörg Valdimarsdóttir, formaður, og Hafdís Vilhjálmsdóttir, varaformaður, gáfu ekki kost á sér áfram og Valgerður Hilmarsdóttir, gjaldkeri, hætti í stjórn. Guðrún Sigurjónsdóttir gaf kost á sér áfram sem meðstjórnandi og Sigrún Líndal situr sitt annað ár sem ritari.

 

Stjórn USAH skipa nú þau:

Rúnar Pétursson, formaður.

Steinunn Hulda Magnúsdóttir, varaformaður.

Guðrún Sigurjónsdóttir, meðstjórnandi.

Sigrún Líndal, ritari.

Katrín Hallgrímsdóttir, gjaldkeri.