Aldís Embla - Ungskáld Akureyrar

Skagstrendingurinn Aldís Embla Björnsdóttir sem stundar nám við MA hlaut útnefninguna Ungskáld Akureyrar fyrir smásögu sína Einræðisherrann. Á vefnum www.akureyri.is birtist neðanrituð frétt um málið:

Aldís Embla er Ungskáld Akureyrar

Almennt - 04. desember 2014 - Ragnar Hólm - Lestrar 82
Brynhildur Þórarinsdóttir afhendir Aldísi Emblu verðlaunin. Mynd: Ragnar Hólm.
Brynhildur Þórarinsdóttir afhendir Aldísi Emblu verðlaunin. Mynd: Ragnar Hólm.

Fyrr í dag voru kunngerð úrslit í samkeppni akureyrskra ungskálda um skapandi skrif og varð Aldís Embla Björnsdóttir hlutskörpust. Fyrir smásögu sína „Einræðisherra“ hlaut hún 50.000 krónur í verðlaun. Önnur verðlaun 30.000 kr. hlaut Kristófer Alex Guðmundsson fyrir ljóðabálk sinn „Brútháll“ og þriðju verðlaun 20.000 kr. Birna Pétursdóttir fyrir leikþáttinn „Bóhemíudrottningin“. Öll þrjú fengu þau ritverkið „Jónas Hallgrímsson – Ævimynd“ eftir Böðvar Guðmundsson að gjöf frá Menningarfélagi Hrauns í Öxnadal.

Að samkeppninni stóðu Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmenna-Húsið, Háskólinn á Akureyri, MA og VMA með stuðningi Menningarráðs Eyþings. Tilgangurinn með samkeppninni er að hvetja fólk á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa og einnig að skapa vettvang fyrir þau til að koma sér og skrifum sínum á framfæri. Þetta er  í annað sinn sem þessi keppni fer fram. Það var Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri, sem afhenti verðlaunin fyrir hönd dómnefndar.

Umsagnir dómnefndar um verkin eru svohljóðandi:

Einræðisherra eftir Aldísi Emblu Björnsdóttur
Einræðisherra er forvitnileg og vel stíluð smásaga - eða örsaga. Sjónarhornið er skemmtilegt og sögumaður óvenjulegur - enda ekki oft sem smábörn á fyrsta ári láta móðann mása. En merkilegt nokk er þessi ungi sögumaður trúverðugur. Það kannast margir við þetta eigingjarna, stjórnsama eða hreinlega freka barn sem þarna fær rödd. Hnyttinn endirinn varpar hins vegar nýju ljósi á krílið - og sýnir að hér er á ferð lunkinn höfundur.

Brútháll eftir Kristófer Alex Guðmundsson
Ljóðabálkurinn Brútháll er bæði hressandi og athyglisverður. Að efni og formi er þetta fornkvæði enda er sjálfur Óðinn í aðalhlutverki. Í klaufaskap sínum hefur hann týnt lyklunum að Valhöll og auðvitað endar leit hans með sögulegum bardaga. Stíll og málfar eru með fornu lagi en höfundur tekur sig mátulega alvarlega eins og sjá má á hendingum á borð við ,,Lyklarnir þínir liggja á borðstofuborðinu.” Höfundur hefur ágætt vald á tungumálinu og glottir skelmislega til fortíðarinnar.

Bóhemíudrottningin eftir Birnu Pétursdóttur
Bóhemíudrottningin er stuttur leikþáttur, einræða, ef til vill hluti af stærri heild. Á sviðinu stendur ung, fátækleg stúlka frá Bóhemíu sem gefur okkur innsýn í líf sitt og örlög. Ræða hennar er lipurlega skrifuð og leikræn framsetningin veldur því að hún stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesanda, með svipbrigðum og látbragði.  Höfundi tekst að skapa trúverðuga persónu, töffara sem auðvelt er að hafa samkennd með.  

Verkin verða birt á heimasíðu Amtsbókasafnsins á Akureyri, www.amtsbok.is.