Ágætu Skagstrendingar
Undanfarið hefur í vaxandi mæli borið á því að fólk láti hunda sína ganga lausa þvert á mjög skýra reglu í samþykkt um hundahald þar sem segir:
„Hundurinn skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd með aðila, sem hefur fullt vald yfir honum. Á almannafæri er hundaeiganda skylt að fjarlægja saur eftir hund/hunda sína á tryggilegan hátt.“
Um síðari hluta þessarar reglu verður því miður einnig að gefa sumum hundaeigendum falleinkunn því víða er hundaskítur á almannafæri.
Er hér með skorað á hundaeigendur að bæta ráð sitt bæði hvað varðar lausagöngu hundanna og óþrif eftir þá. Sérstaklega verður að gera kröfu til að borin sé virðing fyrir leiksvæðum barna í þessum efnum. Eins og oft gerist geta fáir komið óorði á marga með slæmu framferði.
Nokkur brögð eru einnig að því að hundar séu óskráðir og er hér með skorað á þá sem það á við að bæta úr og ganga frá skráningu hunda sinna á skrifstofu sveitarfélagsins.
Ástæða er til að benda á að allir hundar sem eru handsamaðir skulu leystir út með greiðslu samkvæmt gjaldskrá. Í samþykktum um hundahald segir m.a.:
„Hunda sem ganga lausir utanhúss skal handsama og færa til geymslu. Sama gildir um hættulega hunda og óleyfilega hunda.
Kostnaður við töku og geymslu hunda skal að fullu greiddur af eigendum samkvæmt gildandi gjaldskrá.“
Skrá um þá sem hafa leyfi til hundahalds kemur fram undir Stjórnsýsla - Samþykktir á heimasíðu sveitarfélagsins, www.skagastrond.is.
Skagaströnd 18. maí 2011
sveitarstjóri