Hreppsnefnd Höfðahrepps samþykkti ársreikning sveitarfélagsins á fundi sínum 9. maí sl.
Rekstrarniðurstaða samstæðu ársreikningsins sýnir 67,2 milljóna króna jákvæða niðurstöðu en það er 28,5 milljónum króna betri niðurstaða en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrartekjur samstæðu námu tæpum 350 milljónum króna og höfðu aukist um 17% milli ára. Skatttekjur sveitarsjóðs að meðtöldu framlagi jöfnunarsjóðs námu 240,9 milljónum og höfðu aukist um tæp 22% frá fyrra ári. Rekstrargjöld samstæðunnar námu 325 milljónum og höfðu lækkað lítillega frá fyrra ári. Handbært fé jókst um 83,8 milljónir milli ára eða um 14%. Skuldir og skuldbindingar námu 415,8 milljónum en þar af námu langtímaskuldir sveitarsjóðs 56,8 milljónum og lífeyrisskuldbindingar 71,8 milljónum. Í skýringum með ársreikningi kemur fram að laun og launatengd gjöld án breytinga á lífeyrisskuldbindingum námu 52,7% af rekstrartekjum og rekstrargjöld án fjármagnsliða námu 95,3% af rekstrartekjum. Rekstrartekjur samstæðu voru 655 þús á íbúa og rekstrargjöld 568 þús.
Þessi niðurstaða ársreiknings er ein sú besta í sögu sveitarfélagsins en fjármagnstekjur hafa afgerandi áhrif á afkomuna.