Biopol sjávarlíftæknisetur hefur hafið rannsóknir á beitukóngi í Húnaflóa. Hún er unnin í samstarfi við Vör-Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð, Sægarp ehf. á Grundarfirði og Vík ehf. á Skagaströnd.
Markmiðið er að gera frumathugun á hvort beitukóngur (Buccinum undatum) finnist í veiðanlegu magni í Húnaflóa.
Framkvæmd verkefnisins fer fram með þeim hætti að trossur með gildrum er lagðar á völdum svæðum sem eru valin sérstaklega með tilliti til botngerðar og dýpis þar sem aukin líkindi eru á að beitukóngur ætti að geta verið fyrir hendi. Aflinn sem fæst í gildrurnar verður tekin í land til rannsókna. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.
Beitukóngsveiðarnar hafa gengið ágætlega og hefur nú verið vitjað fjórum sinnum um gildrurnar og þær fluttar til.
Fyrstu trossurnar voru lagðar rétt sunnan við Skagaströnd svo hafa þær verið færðar norðar í hvert sinn sem vitjað er. Hafrún HU12 hefur verið notuð til veiðanna og er öll aðstað um borð til fyrirmyndar.
Aflinn var frekar dræmur í annari vitjun, líklega vegna veðurs.
Eftir þriðju vitjun á laugardaginn síðasta var hálf tindabykkja sett til viðbótar við hökkuðu síldina í gildrurnar. Tindabykkjan virðist hafa góð áhrif á veiðina því að í síðust vitjun var heildaraflinn 139 kg eða að meðaltali 2,3 kg í gildru.
Mesta veiðin í eina gildru var 4,9 kg sem þykir nokkuð gott. Veiðin virðist vera best á 10 til 20 föðmum. Áætlað er að leggja trossurnar fjórum sinnum í viðbót í þessari atrennu.