Biskupinn yfir Íslandi, herra Karl Sigurbjörnsson, kom í dag í stutta heimsókn á Skagaströnd. Sagt er að hann hafi viljað komast í tengsl við grasrótina, hitta duglegt og gott fólk sem unir sér vel á landsbyggðinni, fjarri stressi og pólitík höfuðborgarsvæðisins. Ekki er víst að það hafi verið ástæðan en engu að síður var vel tekið á móti biskupi og fylgdarliði.
Í sannleika sagt var hann á ferð ásamt samstarfsfólki sínu á biskupsstofu. Árlega fara þau í sutta ferð og nú liggur leiðin að Löngumýri í Skagafirði. Komið var við á Skagaströnd og þar tóku þau Lárus Ægir Guðmundsson, formaður sóknarnefndar, og Úrsúla Árnadóttir, sóknarprestur, á móti hópnum og buðu honum til kirkju.
Lárus sagði frá kirkju á Spákonufelli frá upphafi kristni og til kirkju á Skagaströnd á vorum dögum. Hann sagðist hafa ræðuna stutta en ekki væri víst að hún hefði verið jafn stutt ef meðhjálparinn ,Steindór R. Haraldsson, hefði haft tök á því að mæta og flutt ræðu, en hann er í Reykjavík.
Úrsúla sagði frá sóknarstarfinu og þar með æskulýðsstarfi sem er í miklum blóma.
Biskup þakkaði fyrir móttökurnar og sagði það ávallt ánægjulegt að koma á Skagaströnd.
Að þessu loknu leiddi Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, hópinn í skoðunarferð um Skagaströnd. Ferðinni var svo framhaldið og ók hópurinn fyrir Skaga og inn í næsta fjörð hér fyrir austan.