Laugardaginn 18. ágúst kl 17.00, á Kántrýdögum, verður frumsýnd heimildarmyndin
„Sumar á Skagaströnd“
í félagsheimilinu Fellsborg.
Frumsýning myndarinnar er öllum opin og íbúum á Skagaströnd og gestum Kántrýdaga boðið að koma og njóta sýningarinnar.
Myndin var unnin á árunum 2008-2011. Í henni er skoðað hvernig atvinnumálum á staðnum er háttað í víðu samhengi og horft til hátækni og menningar. Í myndinni er fjallað um kántrýtónlist, NES listamiðstöð, Spákonuhof, BioPol og fylgst með fjölbreyttu lista- og mannlífi á Kántrýdögum.
Gerð myndarinnar var styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra og unnin í samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd.