Veður er á Skagaströnd. Svo hefur verið lengi. Meðfylgjandi mynd er fengin sjálfvirku veðurathugunarkerfi alþjóða veðurmálastofnunarinnar. Af því má ljóst vera að snjóföl er á jörðu. Frekar lyngt er, aðeins 12 m/s, enda hefur brunahaninn lengst til vinstri á myndinni ekki enn færst úr stað. Það gerist aðeins í snöggum suðsuðvestanhviðum. Hann færist svo til baka í norðnorðaustan hviðum. Markvisst er unnið í íþróttahúsinu að minnkun kviða. Sumir mæta á bíl í vinnuna. Teygst á Skagaströndinni í hvassviðri undanfarinna vikna og því orðið lengra í vinnuna. Sjáanlegt frost er aðeins 3,5 gráður. Af er veðurfar í febrúar. Þá var snjólaust og hlýtt var á Ströndinni. Jafnvel golfarar iðkuðu íþrótt sína við nokkurn vegin skammlausar aðstæður. Ekki var þá vatnsaginn tiltakanlegt vandamál enda brúkuðu þeir einfaldlega klofstígvél við barninginn. Eftir jafndægur er jafnan gert ráð fyrir því að vorið sé handan við sæinn. Halda sumir því fram að það komi líklega af Ströndum eins og svo margir sem nú búa á Skagaströnd. Veðrið heldur svo áfram á Skagaströnd.
Langtíma veðurspá: Vetrarríkinu mun linna fyrir haustið. Snjókoman minnkar og þá tekur við rigningartíð. Þess á milli má búast við heiðskíru veðri, skýjuðu og stundum þungbúnu. Gert er ráð fyrir að hitinn verði á milli 10 gráða og -5 gráða nema þegar er hlýrra eða kaldara. Ekki verður mjög hvasst næstu mánuði frekar lyngt, svona á milli 2 m/s og 25 m/s og er þá ekki gert ráð fyrir hviðum í þeim mælingum enda verða kviðir orðnir flatir fyrir vorið.
Næst verður gefin út veðurspá.