Byggðastofnun hefur gengið frá styrkveitingum og hlutafjárframlögum vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar 2008 og 2009. Við mat á umsóknum var einkum tekið tillit til hlutfalls starfa í veiðum og vinnslu á viðkomandi svæði, nýsköpunargildis, gæða og mögulegs árangurs verkefna auk fjölda starfa sem þeim er ætlað að skapa.
Fjögur verkefni á Skagaströnd fengu styrki að þessu sinni. BioPol ehf. hlaut 4,4 milljónir til vöruþróunar kollagers/gelatíns, Vélaverkstæði Skagastrandar ehf. hlaut 3,0 milljónir til markaðssetningar og vöruþróunar á vettlinga- og stígvélaþurrkarar, Listamiðstöðin Nes hlaut 1,3 milljónir til uppbyggingar alþjóðlegrar listamiðstöðvar á Skagaströnd og Fiskverkunin Dropi ehf. hlaut 1,365 milljónir til markaðssetningar á sjóstangaveiði.
Alls voru 200 milljónir til úthlutunar, 100 milljónir fyrir hvort ár og alls bárust 253 umsóknir samtals að fjárhæð 1.528 milljón króna. Alls hlutu 69 verkefni styrk að þessu sinni en auk þess eru nokkrar umsóknir enn til skoðunar.