Í bréfi sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sent sveitarfélögum er hvatt til að dagurinn verði haldinn hátíðlegur. Þar segir: „ Öll eigum við okkar óskastað í íslenskri náttúru, hvort sem það er tjörn í túnfætinum heima, lundur í íslenskum skógi, fjall sem býður einstakt útsýni, friðlýst svæði eða leynistaður sem geymir ljúfar minningar og leyndarmál. Hver sem staðurinn er þá endurspeglar hann þá staðreynd að íslensk náttúra er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga. Í ár beinum við sjónum að þessari tengingu manns og náttúru og þeirri fjölbreytni sem endurspeglast í ólíkum uppáhaldsstöðum hvers og eins okkar.“
Sveitarstjórn Skagastrandar tók bréfið fyrir á fundi sínum 2. september sl. og ákvað að gera daginn að „Degi Höfðans“ og efna til gönguferðar um höfðann 16. september kl 18.00. Íbúar og aðrir eru hvattir til að mæta og eiga góða stund í gönguferð um náttúrperluna Spákonufellshöfða.
#staðurinnminn #DÍN