Mikil jólastemning er í galleríinu Djásn og dúllerí á Skagaströnd og þar er fallegt handverk af ýmsum toga á boðstólum.
Eftir að hafa skoðað fjölbreytt úrval sýningarmuna er notalegt að tylla sér með kaffibolla í stássstofunni og ylja sér við snarkandi arineld, hlusta á jólatónlist eða líta í bók. Þá verður öðru hvoru lifandi tónlist í boði en það verður nánar auglýst síðar.
Aðstandendur Djásna og dúllerís bjóða alla velkomna í heimsókn. Opið er frá kl. 14 - 18 alla laugardaga og sunnudaga til jóla. Einnig verður opið á Þorláksmessu frá kl. 14 - 21.
Söluvörur eru fjölbreyttar og er best lýst í eftirfarandi vísu:
Málverk, bjöllur, myndir, prjón,
möndlur, gler og sokkar.
Gjafavara gleður sjón
í galleríi okkar.