Efling fyrirtækja og ný tækifæri skoðuð

Fréttatilkynning frá Impru nýsköpunarmiðstöð, 20. apríl 2006

 

 

Efling fyrirtækja og ný tækifæri skoðuð

Frumkvöðlastarf á Norðurlandi vestra

 

 

Fyrir skömmu lauk námskeiðinu Sóknarbraut sem Impra nýsköpunarmiðstöð gekkst fyrir á Skagaströnd og Blönduósi. Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki. Alls tóku 11 frumkvöðlar frá Norðurlandi vestra þátt í námskeiðinu.

 

Viðskiptahugmyndir þátttakendanna sem nú útskrifuðust eru af fjölbreyttum toga. Meðal þeirra eru verkefni á sviði matvælaframleiðslu, smíði og iðnframleiðslu auk margs konar þjónustu. Þátttakendur eru sumir hverjir nú þegar með fyrirtæki í rekstri en aðrir skoðuðu ný tækifæri til atvinnusköpunar í sinni heimabyggð. Fram komu margar áhugaverðar viðskiptahugmyndir. Sérstaka viðurkenningu hlaut þó Oddný María Guðmundsdóttir fyrir áhugaverða og efnilega hugmynd sem tengist matvælavinnslu.

Impra nýsköpunarmiðstöð gengst fyrir fjölbreyttum námskeiðum um land allt. Að þessu sinni var boðið upp á námskeiðið Sóknarbraut á Blönduósi og Skagaströnd, en kennt var til skiptist á stöðunum. Hugmyndin að baki námskeiðinu byggir á að brúa bilið á milli hugmyndar og markvissrar framkvæmdar með því að leiðbeina og þjálfa þátttakendur í því að takast á við frumkvöðlastarf, stjórnun og rekstur fyrirtækis.  Framkvæmd námskeiðsins var unnin í samvinnu við Hauk Suska-Garðarsson atvinnuráðgjafa hjá Samtökum Sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sveitarfélagið Höfðahrepp og sveitarfélagið Blönduósbæ. Aðalleiðbeinandi á Námskeiðinu var G. Ágúst Pétursson viðskiptaráðgjafi.

Frekari upplýsingar um námskeið á vegum Impru nýsköpunarmiðstöðvar má finna á Vefnum undir slóðinni http://www.impra.is/namskeid/. Einnig má snúa sér til Brynju Sigurðardóttur (sími: 5707100, brynjasig@iti.is).

Myndtexti:

 

Mynd 1: Útskriftarhópurinn ásamt leiðbeinendum á námskeiðinu. Talið f.v.: G. Ágúst Pétursson (leiðbeinandi á námskeiðinu), Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson, Sigurður Steingrímsson (verkefnisstjóri hjá Impru), Guðrún Magnúsdóttir, Karitas Pálsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Oddný María Guðmundsdóttir, Guðmundur J. Björnsson, Sunna Gestsdóttir, Eymundur Þórarinsson, og Haukur Suska-Garðarsson (atvinnuráðgjafi SSNV). Á myndina vantar Valdimar Viggósson, Kristján Blöndal og Sigurð Svavarsson sem einnig sátu námskeiðið.

 

Mynd 2: Oddný María Guðmundsdóttir hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir áhugaverða og efnilega viðskiptahugmynd.