Ég skal vaka í nótt.

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps flytur söngdagskrá með lögum og/eða ljóðum húnvetnskra og skagfirskra listamanna.

Í Hólaneskirkju á Skagaströnd fimmtudaginn 12. apríl kl. 20.30

Stjórnandi kórsins er Sveinn Árnason. Undirleik annast Elvar Ingi Jóhannesson ásamt hljómsveit Skarphéðins H Einarssonar.

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps hefur starfað í tæp 90 ár og með kórnum hafa í gegnum tíðina starfað mikilvirkir laga og ljóðasmiðir. Meðal þeirra má nefna Jónas Tryggvason frá Finnstungu ( bjó í Ártúnum ásamt Jóni bróður sínum, söngstjóra kórsins) , en heiti verkefnisins  “ Ég skal vaka í nótt” er nefnt eftir þekktasta lagi Jónasar sem fyrir löngu er orðið einkennislag Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps. Á seinni  árum hafa  oftast verið á söngskrá kórsins  lög eftir heimamenn.  Má þar nefna Svein Árnason, stjórnanda kórsins frá árinu 1994, Skarphéðinn H. Einarsson, Hallbjörn Hjartarson og Geirmund Valtýsson, hagorðir kórfélagar hafa síðan oft samið ljóð við lög sem kórinn flytur.

Í júní nk. mun Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps taka þátt í norrænu karlakóramóti Í Hönefoss í Noregi og kemur þar fram sem fulltrúi  Sveitarfélagsins Skagastrandar. Því er vel við hæfi að lokatónleikar kórsins fyrir utanlandsferð verði á Skagaströnd.

 

Miðaverð er 2.500 kr. posi á staðnum.

Hlökkum til að sjá sem flesta.

Dagskráin er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra.

Kórfélagar.