Egill Örn sigrar í framsagnarkeppni grunnskóla A-Hún

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem tileinkuð er Grími heitnum Gíslasyni, fréttaritara, hestamanni og bónda frá Saurbæ í Vatnsdal, fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 24. mars síðastliðinn. 

Tólf ungmenni tóku þátt í keppninni og áttu þau það öll sameiginlegt að hafa verið valin bestu lesararnir í skólum byggðarlagsins, þ.e. Höfðaskóla, Blönduskóla, Húnavallaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra. 

Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Gunnar M. Magnússon og ljóð eftir Unni Benediktsdóttur, eða Huldu sem var skáldanafn hennar og ljóð að eigin vali. Keppnin var hörð og jöfn að vanda. 

Úrslit urðu þessi:
1. sæti. Egill Örn Ingibergsson, Höfðaskóla.
2. sæti. Sigurjón Þór Guðmundsson, Blönduskóla.
3. sæti. Natan Geir Guðmundsson, Húnavallaskóla.

Hlutu sigurvegararnir peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Sauðárkróki auk
viðurkenningarskjals. 

Egill Örn mun varðveita farandskjöld fram að næstu keppni að ári. Skjöldurinn var gefinn af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun. Skólarnir gáfu Ljóðasafn eftir Stein Steinarr og Félag íslenskra bókaútgefenda gaf Ljóðasafn eftir Huldu, sem sérstaklega var prentað fyrir keppnina.

Dómarar keppninnar að þessu sinni voru Guðrún Bjarnadóttir kennari, Sigrún
Grímsdóttir organisti og kórstjóri og tveir valinkunnir menn sem árlega flakka á milli landshluta til að dæma í Stóru upplestrarkeppninni en þeir heita Baldur Sigurðsson og Þórður Helgason.

Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn og miðað við frammistöðu ungmennanna í keppninni gengur vel að ná því markmiði.

Fréttin og myndin er fengin af vefritinu huni.is.