„Sértu ekki sannfærður eða þú hafir einhverjar efasemdir um heimsókn þína á Skagaströnd, sendu okkur póst og við svörum þér um hæl.“
Þannig segir í niðurlagi fréttar sem birt er á ensku á heimasíðu Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd. Fréttinni er beint til listamanna sem eiga pantað pláss í listamiðstöðinni eða hyggjast gera það.
Markmiðið er að sannfæra listamenn að óhætt sé að ferðast til Íslands, eldgosið sé svo afskaplega langt frá bænum.
Ástæðan fyrir fréttinni eru áhyggjur einstakra útlendra listamann og en ekki síður missagnir í erlendum fjölmiðlum sem þekkja ekki til aðstæðna hér á landi. Við liggur að í sumum þeirra sé allt landið undir áhrifasvæði Eyjafjallajökuls og landsmenn eigi svo óskaplega bágt.
Með fréttinni er birt landakort og inn á það er Skagaströnd merkt sem og Reykjavík og Keflavíkurflugvöllum. Á kortið er afmarkað það svæði sem öskufallið hefur hingað til verið mest.
Slóðin á heimasíðu Ness listamiðstöðvar er www.neslist.is.