Fréttaskot frá Skagaströnd

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið í gangi í sveitarfélaginu síðustu vikur og margt spennandi framundan!

Höfðaskóli

  • Skóli á grænni grein: Höfðaskóli fékk Grænfánann afhentan í annað sinn. Halldór Gunnar Ólafsson oddviti sveitarfélagsins mætti og flaggaði Grænfánanum á skólalóðinni með flottu krökkunum okkar og starfsfólki skólans. Við erum ákaflega stolt af því að vera skóli á grænni grein en Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnd Grænfánaverkefnið sem helsta innleiðingartæki fyrir menntun til sjálfbærni í heiminum. Áhugasamir geta kynnt sér hvað felst í Grænfánaverkefninu hér.
  • Valgreinadagur: Miðvikudaginn 27. mars, komu nemendur í 8.–10. bekk frá Grunnskóla Húnaþings vestra og Húnaskóla í heimsókn í Höfðaskóla á Skagaströnd þar sem haldinn var valgreinadagur. Valgreinadagar eru haldnir tvisvar sinnum yfir skólaárið og skiptast Húnaskóli, Grunnskóli Húnaþings vestra og Höfðaskóli á að halda daginn. Í þetta sinn var það Höfðaskóli sem tók á móti gestum og bauð upp á fjölbreyttar valgreinar fyrir nemendur. Var dagurinn vel heppnaður í alla staði. 
  • Árshátíð: Árshátíð Höfðaskóla var haldin hátíðleg fimmtudaginn 3. apríl og sýndu nemendur glæsilegan leikþátt sem var virkilega vel heppnaður að sögn viðstaddra enda erum við svo lánsöm að eiga skóla fullan af hæfileikaríkum, hugrökkum og duglegum börnum og ungmennum hér á Skagaströnd.
  • Rannsóknasjóður KÍ: Sara Diljá Hjálmarsdóttir skólastjóri Höfðaskóla hlaut 830.000 kr. styrk úr Rannsóknarsjóði KÍ vegna verkefnisins Samvinnudagar nemenda á unglingastigi. Er verkefnið eitt af 7 verkefnum sem hljóta styrk þetta árið. Óskum við Söru Diljá innilega til hamingju með þennan árangur. 

Það er alltaf nóg um að vera í Höfðaskóla og hvetjum við íbúa og áhugasama til að fylgjast með starfinu á heimasíðu skólans sem er uppfærð oft í viku bæði með fréttum og myndum frá starfinu í skólanum. Heimasíðu skólans má finna hér. 

Golfklúbbur Skagastrandar

Á ársþingi USAH þann 16. mars sl. veitti sambandið Golfklúbbi Skagastrandar viðurkenningu í tilefni af 40 ára afmæli klúbbsins en hann var stofnaður 27. nóvember árið 1985. Finnbogi Guðmundsson formaður tók við viðurkenningu fyrir hönd Golfklúbbsins. Óskum við Golfklúbbnum til hamingju afmælið og viðurkenninguna!

Skákmót Skagastrandar 2025

Skákmót Skagastrandar verður haldið í vikunni 7. - 12. apríl n.k. Á síðasta ári voru keppendur 8 talsins og það væri frábært að fjölga í hópnum í ár - öll eru velkomin. Mótið fer fram í gamla kaupfélaginu á Einbúastíg 2 og er í boði fyrirtækisins H 59 ehf.  Þeir sem kunna að hafa áhuga á að taka þátt geta haft samband við Lárus Ægi í síma 864-7444.

Bókasafn Skagastrandar

Hún Sandra bókavörður á Bókasafni Skagastrandar er ótrúlega dugleg að brydda upp á ýmsum nýjungum. Hún hefur boðið börnum í Höfðaskóla upp á föndurstund með bókaverði þar sem þeim gefst tækifæri til að búa sér til svokallað "diamond painting" bókamerki. Fyrsti hópurinn mætti til hennar núna í lok mars og skemmti sér konunglega við þessa skemmtilegu iðju. Hægt er að fylgjast með starfsemi bókasafnsins á fb síðunni safnsins hér. 

Framkvæmdir og verkefni sumarsins

  • Höfnin: Byrjað er að steypa á Ásgarði og verður gaman að fylgjast með bryggjunni taka á sig fullbúna mynd í sumar.
  • Bogabraut 7: Ráðist verður í utanhúsframkvæmdir á húsinu í sumar.
  • Leikskólinn: Klæða þarf hluta leikskólans og mála að utan ásamt því að skipta um útihurðar.
  • Grunnskóli: Laga þarf eldhús á jarðhæð ásamt því að skipta um hluta af klæðningu í lofti en setja á kerfisloft með innfelldri lýsingu. 
  • Tjaldsvæði: Laga þarf ýmislegt í húsinu og skipta um útihurð.
  • Spákonufellshöfði: Sveitarfélagið hlaut 41,1 millj. styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að hanna og útbúa göngustíg að útsýnispalli með aðgengi fyrir alla. Stígurinn verður 320 m langur og fylgir reglum um algilda hönnun. Við enda stígsins verður komið upp skilti með fræðslu um mannvirki sem áður stóðu á Höfðanum. Sveitarfélagið hefur nú alls fengið um 70 millj. úr Framkvæmdasjóði síðan 2022 til uppbyggingar á Höfðanum og verður stígurinn og útsýnispallur kláraður í sumar.

Hetjur Hafsins

Það styttist í uppáhalds hátíð okkar Skagstrendinga sem Björgunarsveitin Strönd hefur haldið af miklum myndarskap síðustu ár - Sjómannadagshátíðin Hetjur Hafsins.  Hátíðin verður haldin dagana 29. maí – 1. júní 2025. Þar geta ungir sem aldnir fundið eitthvað við sitt hæfi frá morgni til kvölds! Þeir sem vilja vera með viðburð á hátíðinni eru hvattir til þess að senda tölvupóst á netfangið helenamaravelemir@gmail.com. Takið dagana frá!

Myndefni

Við viljum hvetja íbúa og alla sem gætu átt myndefni/heimildarefni frá Skagaströnd á hvaða formi sem það er (ljósmyndir, 8 mm, vidjó, geisladiskar os.frv.) til þess að færa efnið í stafrænt form svo það glatist ekki eða koma til sveitarfélagsins svo hægt sé að varðveita efnið með einhverjum hætti.

Krílasport

Minnum á Krílasport fyrir börn á leikskólaaldri alla laugardaga milli 10 og 11 í íþróttahúsi Skagastrandar.

 

Sveitarstjóri