Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Fisk Seafood boðið starfsmönnum fiskvinnslu á Skagaströnd að vinna við vinnslu félagsins á Sauðárkróki. Þegar þessi staða kom upp átti sveitarstjórn Skagastrandar fund með Jóni E. Friðrikssyni framkvæmdastjóra Fisk Seafood og fór yfir stöðuna. Þar skýrði Jón ástæður þess að starfsmönnum hafi verið gert fyrrgreint tilboð og kom m.a. fram að hann taldi ekki forsendur til óbreyttrar vinnslu á Skagaströnd í ljósi þeirrar kvótaskerðingar sem fyrirtækið hefur orðið fyrir.
Í framhaldi af þeim fundi átti sveitarstjórnin fund með starfsmönnum þar sem staða og horfur voru ræddar og hvaða valkosti starfsmenn hefðu. Starfsmenn hafa ekki svarað því enn hvort þeir fallist á breyttar forsendur í starfi og eru bæði þeir og forsvarsmenn Fisk Seafood að meta stöðuna.