Nú er dögun nýs lýðveldis! Maður gengur inn í nýjan heim við Hverfisgötuna í Reykjavík. Flóttamannabúðir fyrir utan Þjóðmenningarhúsið eru táknmynd þess hvernig komið er fyrir sjálfstæði Íslands á tímum efnahagslegrar kreppu, fólk er svo gott sem fangar í eigin landi.
Hermenn Sameinuðu þjóðanna, friðargæsluliðar og varðliðar í flóttamannabúðum taka á móti fólki við hliðið og aðstoða það í neyð sinni.
„Þjóðmenning“ er hin eina sanna menning, hún er tilbúin, orðin til, býður ekki upp á neina sköpun. Hún er safn úr liðnum tíma, glötuðum tíma, fortíðinni.
Vegabréfsáritun þarf til að fá inngöngu á nýtt svæði, oft þarf að framvísa skilríkjum á leiðinni.
Safnið er tákn fyrir eilífa þekkingarleit mannsins, leit hans að samhengi hlutanna. En þegar hlutir eru teknir úr náttúrulegu umhverfi sínu og komið fyrir í umsjón ríkis eða valds glata þeir merkingu sinni.
Hvað er mannkynssaga annað en safn minninga? Heilabú aldraðrar manneskju gæti verið táknmynd fyrir sögu. Hver einstaklingur er safn visku, erfðaminnis, safn þekkingar og upplýsinga sem eru geymdar á ólíkum stöðum í líkamanum.
Á meðan á sýningunni stendur verða áhorfendur leiddir í gegn um völundarhús mann- og kvenkynssögunnar. Þjóðmenningin verður stríðsmenning og ekkert verður aftur samt.
„Gerðu það sjálfur“, dráps-prógramm, þjóðhetjur, þjóðsöngvar, nóg af brauði fyrir alla; af moldu ertu kominn og að moldu skaltu aftur verða.
Sýningar, gjörningar og tónlist. Tala fallinna er óviss. Dauði sagnfræðilegs erfðaminnis er mögulegur.
Safnið er athvarf og án athvarfsins er það ekki til. Safnið er skjól. Verkin eru í skjóli fyrir veðri og vindum, alls kyns hættum og síðast en ekki síst hvers lags efasemdum.
Leiðsögn
Margrét Vilhjálmsdóttir, leikkona og listrænn stjórnandi, fer fyrir hópi listamanna sem leiðir gesti Þjóðmenningarhússins um gjörning um landamæri og skrifræði og leiksýningu um stríðsmenningu.
Hópurinn flytur þetta eldfima efni inn í Þjóðmenningarhúsið, tákn fyrir íslenskt lýðræði og sjálfstæði. Hið virðulega Þjóðmenningarhús verður vettvangur stríðsátaka, kvenfrelsisbaráttu, stríðs og friðar.
Leikrit inni í leikritinu fjallar um konur sem hittast eftir langvarandi stríð, höfundur þess er Hrund Gunnsteinsdóttir.
Stjórnendur
Aðrir listrænir stjórnendur eru Eva Rún Snorradóttir, Friðgeir Einarsson, Karl Ágúst Þórbergsson, Gunnar Tynes (tónlist), Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (búningar), Frosti Friðriksson og Þórunn E. Sveinsdóttir (leikmynd), Arnar Ingvarsson (ljós og hljóð). Flytjendur: Aðalbjörg Árnadóttir, Magnea Valdimarsdóttir, Halldóra Malin Pétursdóttir, Helga Rakel Rafnsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, María Pálsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Íris Stefanía Skúladóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir, Halla Mía Ólafsdóttir, Reynir Örn Þrastarson, Halga Birgisdóttir, Varsjárbandalagið, ásamt fjölmörgu listafólki.