Frá leikskólanum Barnabóli Gjöf endurskinsvesti frá Sjóvá

 Um miðjan nóvember kom Dagný Sigmarsdóttir umboðsmaður Sjóvá færandi hendi á leikskólann Barnaból og gaf  okkur 15 endurskinsvesti.  Þann 18. nóvember fengum við góða heimsókn en þá kom Erna B. Jónmundsdóttir lögreglumaður og yngstu leikskólabörnin fóru í nýju vestin og sýndu henni stolt hvað þau væru fín og örugg í umferðinni í nýju vestunum. 

Endurskinsvesti hafa verið notuð á leikskólanum Barnabóli frá árinu 1998 og eru mikið þarfaþing og öryggistæki þegar farið er með börnin út fyrir skólalóðina.

Öryggið felst í því að börnin eru sýnilegri í umferðinni og bílstjórar og aðrir vegfarendur koma betur auga á þessa lágvöxnu samborgara  sína,  einnig er mun auðveldara fyrir kennara leikskólans að halda utan um og fylgjast með hópnum sínum þegar þau eru í vestum.

Þegar elstu börn leikskólans fara í grunnskólaheimsókn í Höfðaskóla tökum við börn úr 1. bekk með okkur í leikskólann og skilum þeim svo aftur þegar við sækjum leikskólabörnin og  þá eiga allir að fara í vesti. 

Þetta finnst 1.bekkingum stundum skrítið „já , en við erum hætt í leikskólanum“  en eins og Þórunn segir við þau  „það fara allir sem eru að koma og fara á leikskólann í vesti “ og með það skundum við á milli skólana og allir eru sáttir við þessa tilhögun.

 

Kær kveðja frá Barnabóli með óskum til allra um góðan tíma

í skammdeginu með kertaljósum og seríum.

 

Þórunn Bernódusdóttir

Leikskólastjóri