Frá Námsstofunni á Skagaströnd

Nú eru hafin próf í Námsstofunni á Skagaströnd. 17 einstaklingar taka 43 próf við 4 skóla. Fyrstu prófin voru 22. nóvember og þau síðustu 16. desember. Hér á eftir er stutt yfirlit yfir starfsemi í Námsstofunni á Skagaströnd árið 2005.

 

Fjarnámsnemendur

Nú eru 24 nemendur í fjarnámi sem hafa notað Námsstofuna á árinu 2005. Auk þess eru 6 með samning án þess að nota Námsstofuna ennþá. Í mars tók einn fjarnámsnemandi próf í Námsstofunni, 14 tóku 27 próf frá 4 skólum í maí og einn tók próf í ágúst.

 

Fjarfundabúnaður

Samtals 10 einstaklingar hafa nýtt sér búnaðinn til að sitja kennslustundir. Nú á haustönn voru 4 einstaklingar að nota búnaðinn 4 daga aðra vikuna og 2 daga hina vikuna.

 

Fjarfundabúnaðurinn hefur einnig verið notaður til kynningar á námi frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík. Enginn mætti á þessar kynningar.

 

Kjölur var með kynningu í maí þar sem 5 mættu og sjúkraliðar voru með kynningu á kjarasamningi í júlí þar sem 10 mættu.

 

Fyrsta desember var sviðsstjóri hjúkrunar á Landspítala Háskólasjúkrahúss með vikulegan fræðslufund frá 6. hæð á Landakotsspítala um hjúkrun aldraðra. Einn mætti á þann fund hér á Skagaströnd.

 

Annan desember var fundur fyrir náms- og starfsráðgjafa vegna Europass í námsstofunni. Einn sat þann fund.

 

Háskólanemar í verkefnavinnu

Fjórir háskólanemar unnu í námsstofunni á árinu í lokaverkefnum sínum. Þar af tveir við erlenda háskóla.

 

Annað í Námsstofunni

Í viðverubók Námsstofunnar höfa 59 einstaklingar kvittað fyrir notkun í lok október. Þetta eru þeir sem getið er hér að ofan auk nemenda frá Blönduósi, Húsavík og Reykjavík sem koma hingað og vinna verkefni með nemendum héðan. Auk þess eru nokkrir sem ekki hafa kvittað fyrir sig.

 

Í febrúar var gerð tilraun með Trésmiðju Helga Gunnarssonar. Helgi kom með 1-2 með sér eftir morgunkaffi og fengu þeir leiðsögn um internetið, póstforrit og Exel. Jón í Toppnet kom einnig nokkrum sinnum.

 

Einn nemandi notaði Námsstofuna í nokkra daga til að lesa undir próf sem hann þurfti að endurtaka í júní. Auk þess kemur fyrir að framhalds-og háskólanemar nota heimsóknir á “Hótel Mömmu” um helgar til að læra í Námsstofunni.

 

Í viku símenntunar var eitt kvöldið námskeið á vegum Farskólans sem tveir tóku þátt í auk kennarans Ólafs Bernódussonar. Annað tveggja kvölda námskeið sem auglýst var féll niður vegna þess að enginn skráði sig.

 

Námsstofan hefur nokkrum sinnum verið notuð til að halda fundi með stjórn Umf. Fram og stjórn Félagsmiðstöðvarinnar Undirheima.

 

Nú fer bráðlega nýtt ár í hönd með nýjum tækifærum fyrir þá sem vilja nota sér þessa aðstöðu hér á Skagaströnd. Þeir sem hyggja á nám á vorönn geta haft samband við umsjónarmann og fengið þá aðstoð sem hann getur veitt.

Desember 2005

Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd

Hjálmur Sigurðsson  S: 8440985