Frá sveitarstjóra


Með hækkandi sól, fjölmennari mannamótum og opnun landamæra hefur hætta á smitum vegna Covid19 aukist. Frá 15. júní sl. hafa 20.000 ferðamenn komið til Íslands. Af þeim hafa 15.000 manns verið skimaðir og 13 virk smit greinst. Sú tala gefur þó ekki raunhæfa mynd þar sem veiran kemur ekki fram í prófunum fyrr en nokkrum dögum eftir smit og er því nauðsynlegt að taka upp tvöfaldar prófanir eftir komu til landsins með 5 daga millibili.
Smit geta breiðst út hratt eins og við vitum og getur smit hjá einum einstaklingi breitt sér út til hundraða manna. Núverið eru rúmlega 400 manns í sóttkví út af smiti hjá 2 aðilum.


Íslendingar eru orðnir fremur værukærir og Skagstrendingar eru engin undantekning þar. Við höfum minnkað sprittnotkun, virðum illa tveggja metra regluna og erum ekki nógu dugleg að halda okkur heima ef við finnum fyrir kvefeinkennum eða öðru sambærilegu. Það má ekki gleymast að einstaklingsvarnir eru gríðarlega mikilvægt verkfæri í baráttu við veiruna og þar getum við lagt okkar af mörkum.


Á fjölmennum mannamótum eins og íþróttamótum, tónleikum og hátíðum sem við munum mörg hver sækja í sumar er mikilvægt að við förum öll varlega og fylgjum því skipulagi sem sóttvarnaryfirvöld hafa boðað. Má þar sérstaklega nefna skiptingar í sóttvarnarhólf bæði á meðan á viðburðum stendur og eftir þá, aukinn handþvott og sprittnotkun.


Bóluefni gegn veirunni er ekki væntanlegt fyrr en í lok árs 2021. Það er því enn langt í land og við eigum eftir að glíma við veiruna sjálfa og afleiðingar hennar í umtalsverðan tíma.


Skemmtum okkur skynsamlega í sumar og spörum faðmlögin þangað til betur stendur á!


Með sumarkveðju
Sveitarstjóri