Frábærir tónleikar Svavars og Aðalsteins í gærkvöldi

Gleðibankinn græddi á tá og fingri á tónleikum Svavars Knúts og Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar í Kántrýbæ í gærkvöldi. Skemmtunin var ósvikin, mikið hlegið enda stutt í grínið hjá þessum gleðipinnum en engu að síður var slegið á alvarlegri strengi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á tónleikunum.

Svavar Knútur er góður gítarleikari. Hann semur lög og texta á ensku og íslensku. Þau eru oftar en ekki rómantísk og eiga uppruna sinn í reynslu höfundarins. Þetta eru lög eins og Clementine, Yfir hóla og yfir hæðir og fleiri. Og salurinn tók undir þegar höfundurinn bað um það.

Ekki tókst Svavari síður upp þegar hann spilaði og söng af nýju plötu sinni Amma, en á henni eru gömul og klassísk lög. Eftirminnilegur var flutningur hans á laginu Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson.
 
Yfir í Fjörðum allt er hljótt
Eyddur hver bær hver þekja fallin
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt
Háreistum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð

En Svavar gleymir sér ekki í rómantíkinni, hann er óforbetranlegur sögumaður, óð um víðan völl og dagði frá reynslu sinni og tilfinningum á þann hátt að salurinn grét af hlátri.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er rithöfundur, skáld og tónlistarmaður. Hann á sér langan feril, gefið út bækur, ort ljóð, þýtt ljóð, þýtt söngljóð sænska vísnaskáldsins Cornelis Vreeswijk.

Aðalsteinn söng fjölda laga og las upp ljóð sín og meðal annars úr þýðingum sínum á tveimur ljóðabókum bandaríska ljóðskáldsins Hal Sirowitz, sem eru uppfull af skopi sem skáldið hermir upp á föður sinn og móður.

Þó Aðalsteinn sé yfirvegaður maður og alvarlegur var alltaf stutt í grín og gleði hjá honum. Hann söng eftirminnilegt lag eftir Cornelis Vreeswijk um ofbeldismanninn Óttar Óttarlega og hnykkti áheyrendum við enda hafa fæstir heyrt sungið um ofbeldi á þennan hátt. Fábært var að hlusta á Aðalstein flytja ljóðaþýðingar sínar eftir Hal Sirowitz um móður sína. Hún hélt því fram að ungi sonurinn mætti ekki setja fingurinn ofan í tómatsósuflöskuna því þá, myndi hann festast. Faðirinn myndi svo með erfiðismunum ná honum upp úr henni en við það afmyndst fingurinn og loks myndi engin kona vilja eiga mann með þannig fingur ...!

Eftir tveggja tíma tónleika var ljóst að Gleðibankinn græddi rosalega, bros og hlátrar streymdu inn á innlánsreikningana.