Magdalena Margrét Einarsdóttir íslenskukennari í Húnavallaskóla flutti ávarp og tveir nemendur úr Tónlistarskóla Austur Húnavatnssýslu komu fram. Guðbjörg Anna Pétursdóttir lék á saxafón og Hugrún Lilja Pétursdóttir á píanó.
Þrír keppendur komu frá hverjum skóla þ.e. Blönduskóla, Húnavallskóla, Höfðaskóla, og Grunnskóla Húnaþings vestra. Forkeppni er haldin í hverjum skóla fyrir sig og mæta því þrír bestu úr hverjum skóla í lokakeppnina. Óhætt er að segja að allir keppendur hafi staðið sig vel og settu dómnefndina í talsverðan vanda, því erfitt var að velja úr.
Dómarar voru að þessu sinni Baldur Sigurðsson, Benedikt Blöndal, Kolbrún Zophoníasdóttir og rithöfundarnir Gunnar Helgason og Arndís Þórarinsdóttir.
Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, ljóð eftir Guðmund Böðvarsson og ljóð að eigin vali.
Úrslit urðu þessi:
Ólafur Halldórsson Höfðaskóla
Hugrún Lilja Pétursdóttir Húnavallaskóla
Víkingur Leon Þórðarson Blönduskóla
Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn veittu peningaverðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun. Skólarnir gáfu Ljóðasafn eftir Stein Steinarr og Félag íslenskra bókaútgefenda gaf úrval úr ljóðum Guðmundar Böðvarssonar.
Að lokum var farandskjöldur afhentur en skjöldurinn var gefinn af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Sá skóli sem hlýtur fyrsta sætið varðveitir skjöldinn fram að næstu keppni og kom það í hlut Höfðaskóla að þessu sinni.