Fréttabréf

 

Kæru Skagstrendingar

Í ljósi þess að ýmislegt hefur verið til meðferðar og umfjöllunar sem ástæða er til að skýra og kynna er ykkur nú sent þetta fréttabréf.

Nýtt nafn

Nafni sveitarfélagsins hefur verið breytt og heitir það nú Sveitarfélagið Skagaströnd frá 1. september 2007. Nafnabreytingin er gerð í framhaldi af ákvörðun hreppsnefndar Höfðahrepps 12. júní sl. og byggðist m.a. á skoðanakönnun á meðal íbúanna.

Skólamáltíðir

Á fundi sínum 27. ágúst sl. ákvað sveitarstjórn að taka upp skólamáltíðir við Höfðaskóla. Í framhaldi af þeirri ákvörðun hefur verið samið við Kántrýbæ um að taka að sér matreiðslu og sjá fyrir aðstöðu. Hefjast skólamáltíðir þar mánudaginn 17. september nk. Nemendur þurfa að skrá sig í máltíðir þrjá eða fjóra daga vikunnar, mánudaga til fimmtudaga. Hver máltíð kostar 250 krónur og er þar einungis rukkað fyrir áætluðum hráefniskostnaði.

Skólastjóri hefur þegar sent forráðamönnum skólabarna kynningarbréf og eyðublað til skráningar.

Frístundakort

Á síðasta fundi hreppsnefndar Höfðahrepps 27. ágúst sl. var samþykkt að gefa út frístundakort fyrir alla einstaklinga í sveitarfélaginu á grunnskólaaldri. Fyrirkomulag frístundakortsins verður þannig:

·        Að það nýtist til skipulegs íþrótta- og æskulýðsstarfs á Skagaströnd.

·        Að það sé til greiðslu fyrir allt að 15.000 króna þátttökugjöldum á tímabilinu 1. september 2007 til 31. ágúst 2008.

·        Að það nái til starfsemi íþróttafélaga og skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur 6 vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjöldum. Kortið getur náð til allrar frístundaiðkunar, þ.m.t. tónlistar- og listnáms.

·        Að sú starfsemi sem frístundakortið getur náð til sé viðurkennd af sveitarstjórn. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarstjórnar.

Framkvæmd notkunar frístundakortsins verður þannig að foreldrar greiða fyrir námskeiðið og koma með kvittun á skrifstofu sveitarfélagsins þar sem þeir fá endurgreitt allt að 15.000 kr. fyrir frístundastarf barna sinna.


 

Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf.

Á vegum sveitarfélagsins hefur frá því í apríl á þessu ári verið unnið að stofnun sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd í samstarfi við dr. Hjörleif Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Í framhaldi af undirbúnings- og stefnumótunarvinnu stofnaði sveitarfélagið Sjávarlíftæknisetrið Bio Pol ehf. Stofnfé þess er 7 milljónir króna. Markmið eigenda og stjórnenda BioPol ehf er að koma upp rannsóknar- og vísindasetri sem geti skapað þekkingu, störf og verðmæti í framtíðinni.

Halldór Gunnar Ólafsson sjávarútvegsfræðingur hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri BioPol ehf. Þegar hafa verið lögð drög að samstarfi við Háskólann á Akureyri með samstarfssamningi sem undirritaður verður 5. september nk. Einnig hefur verið stofnað til sambands við Scottish Association for Marine Science í Skotlandi.

Meginstarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna geta m.a. beinst að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig gæti rannsóknarstarfið beinst að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum.

Á vettvangi lífríkisrannsókna er stefnt að því að byggja upp samstarf við sambærilegar rannsóknarstofur bæði innan lands og utan.

Við rannsóknir á vettvangi sjávarlíftækni verður lögð áhersla á að kortleggja þau verðmæti sem þekkt eru ásamt því að leita nýrra verðmæta og nýsköpunar, t.d á vettvangi fæðubótaefna, snyrtivara, sem og íblöndunarvara fyrir matvæla- og fóðuriðnað. Skrifstofa BioPol ehf er að Bjarmanesi á Skagaströnd.

Menningarfulltrúi

Menningarráð Norðurlands vestra hefur ráðið Ingiberg Guðmundsson til starfa sem menningarfulltrúa. Forsendur ráðningarinnar eru gerð menningarsamnings milli ráðuneyta mennta- og samgöngumála annars vegar og SSNV hins vegar um eflingu mennigarstarfs á svæðinu. Starfssvið menningarfulltrúa er m.a. dagleg umsýsla fyrir menningarráðið, fagleg ráðgjöf og efling samstarfs að menningarmálum. Ingibergur hóf störf 1. september sl. og hefur skrifstofu að Bjarmanesi á Skagaströnd.

Með góðri kveðju

Magnús B. Jónsson

sveitarstjóri