Fréttaskot frá Skagaströnd

Helstu fréttir síðustu vikur og daga frá Skagaströnd

 

Framkvæmdir við Ásgarð

Vinna er hafin við endurbyggingu Ásgarðs en verkið hefur því miður verið stopp síðustu tvær vikurnar. Verktakinn Borgarverg er að bíða eftir búnaði til þess að geta haldið áfram með verkið og hægt verði að reka niður stálþilið.  Enn er stefnt að því að klára verkið fyrir áramót. Það hefur því miður eitthvað borið á hruni úr gamla bryggjukantinum og stöku drumbar verið á floti um hafnarsvæðið. Mikilvægt er að sjófarendur fari varlega við siglingu um höfnina og eru þeir ennfremur hvattir til þess að vera í sambandi við hafnarvörð eða sveitarstjóra komi þeir auga á eitthvað sem þarf að bregðast við. Borgarverksmenn komu hingað um síðustu helgi og réðust í bráðabirgðaúrbætur og mun Vegagerðin áfram sinna eftirliti með verkefninu og framkvæmd þess. 

Bygging húsa við Ránarbraut

Það er ánægjulegt að senn muni rísa fjögurra íbúða raðhús við Ránarbraut en húsin eru hluti af uppbyggingarverkefni sveitarfélagsins og HMS undir forskriftinni "Tryggð byggð" og eru byggð af Brák íbúðarfélagi. Verkefnið miðar að uppbyggingu á leiguhúsnæði á landsbyggðinni og er fyrsta áfangi verkefnisins.  Lengi hefur verið beðið eftir að framkvæmdir fari af stað og því mjög gleðilegt að púði fyrir nýbygginguna hafi verið klár í byrjun vikunnar. J. Evensen verktaki tók grunninn og gerði púðann og munu heimamenn frá fyrirtækinu Verk lausn sjá um að slá upp fyrir sökkli. Við fylgjumst spennt með framvindu verksins.

Félagsstarf 60+ hafið að nýju

Félagsstarf 60+ í Fellsborg var opnað aftur eftir langt sumarhlé í vikunni og var verulega gaman að sjá hversu góð mætingin var. Alexandra Ósk tók við starfinu af Obbu og Ásthildi sem höfðu séð um starfið af myndugleika um áratuga skeið. Með nýju fólki koma nýjar áherslur og hvetjum við íbúa til þess að vera duglega að mæta áfram og þróa starfið með henni Alexöndru. Við tökum vel á móti hugmyndum og tillögum að breytingum ef það er eitthvað sem að iðkendur hafa áhuga á að bæta eða breyta við starfið. Félagsstarfið er alla mánudaga og fimmtudaga frá 14:00-17:00. Íbúar Húnabyggðar eru hjartanlega velkomnir.

BeActive - Umf. FRAM

Umf. Fram setti saman glæsilega dagskrá í tilefni af BeActive - Íþróttaviku Evrópu og voru viðburðir vikunnar mjög vel sóttir. Það eru ýmsir skemmtilegir viðburðir um helgina og fram á mánudag t.d. jóga, heimsókn frá Íþróttaálfinum og sjósund, en nánari dagskrá má m.a. sjá á fb síðu Ungmennafélagsins hér

Krílasport 

Við minnum svo á að það er Krílasport alla laugardaga í íþróttahúsi Skagastrandar frá 10-11 og eru öll hjartanlega velkomin. Það kostar ekkert að mæta.

 

Sveitarstjóri