Fréttaskot frá Skagaströnd

Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi á Skagaströnd og hin ýmsu verkefni sem unnið er að þessa dagana.

Sveitarfélag ársins - viðurkenning

Sveitarfélagið Skagaströnd hlaut viðurkenningu og 2. sæti sem Sveitarfélag ársins. Sveitarfélag ársins er samstarfsverkefni tíu stéttarfélaga bæjarstarfsmanna innan BSRB. Veitt er viðurkenning fyrir bestu heildarniðurstöðu þátta sem stuðla að blómlegu og heilbrigðu starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélaga. Sveitarfélagið er afskaplega stolt af þessari viðurkenningu og mun kappkosta við að hljóta slíka viðurkenningu árlega enda mikilvægt að hlúa vel að þeim mannauð sem við erum svo lánsöm að hafa innan raða sveitarfélagsins. Nánar má lesa um verkefnið hér.

Sesselja Guðmundsdóttir - 35 ára starfsafmæli fyrir leikskóla sveitarfélagsins

Við sögðum frá því í vikunni á samfélagsmiðlum sveitarfélagsins að Sesselja Guðmundsdóttir, okkur öllum kunn sem Sessý, hafi átt 35 ára starfsafmæli fyrir sveitarfélagið þann 15. október sl. Í föstudagspósti leikskólans Barnabóls kom fram að Sessý hafi tekið  saman með hve mörgum hún hefur unnið á þessum tíma hér á Skagaströnd og telst henni til að hún sé búin að starfa hér með 70 manns, börnin sem hún hefur kennt eru mörgum sinnum fleiri og þegar allar fjölskyldurnar sem hún hefur kynnst eru teknar saman þá fer hópurinn sjálfsagt að skipta hundruðum. Við þökkum Sessý fyrir það farsæla starf sem hún hefur unnið í þágu okkar dýrmætustu þegna síðustu áratugina og vonum að við njótum hennar krafta sem lengst. 

Raðhús á Ránarbraut

Bygging raðhúsa á Ránarbrautinni gengur vel enda hefur veðrið leikið við okkur hér á Skagaströnd í haust. Byrjað var á framkvæmdum í september og verður botnplata klár núna um mánaðarmótin. Íbúðirnir verða svo tilbúnar til afhendingar haustið 2025 og fara allar í útleigu í gegnum Brák leigufélag. Íbúðirnar eru fjórar talsins og þar af 2x 85fm með 2 svefnherbergjum og 2x 95fm 3 svefnherbergja. Stefnt er að því að setja á sölu tvær raðhúsalengjur til viðbótar í nóvember sem verða afhentar næsta haust ef eftirspurn verður eftir húsunum. 

Skagastrandarhöfn og slippur

Höfnin okkar er þétt setin þessa dagana og plássin vel nýtt. Veðurfar hefur verið hið ágætasta, vel hefur fiskast og löndunartölur hafnarinnar góðar. Við höfum tekið á móti vinum okkar frá Vísi núna í haust líkt og síðustu ár og er alltaf jafn upplífgandi að sjá svona mikið líf í höfninni. Slippurinn hefur aðeins verið að stríða okkur undanfarið en ráðist var í úrbætur í vikunni og er hann kominn í stand sem gleður eflaust marga útgerðina. Við hvetjum alla til að fylgjast með facebook-síðu Skagastrandarhafnar þar sem birtar eru aflatölur og fréttir frá höfninni nánast daglega.

BioPol - Eru Teflon og GoreTex að skaða framtíð hafsins?

Það eru mörg spennandi verkefni sem unnið er að innan BioPol sjávarlíftækniseturs og geta áhugasamir glöggvað sig á einu slíku verkefni sem unnið er í samstarfi við Háskólann á Akureyri þann 23. október næstkomandi.  Þar segir Ashani Arulananthan, doktorsnemi við Auðlindadeild, frá rannsóknum sínum á áhrifum flúorsetinna alkanefna á vöxt og efnaskipti kísilþörunga. Verkefni Ashaniar er umfangsmikið og beitir krefjandi aðferðum svo sem örveruþýðisgreinigu (metabarcoding), greiningu á genatjáningu (transcriptomics), efnamengjagreiningu (metabolomics) og fleira. Það er unnið í samstarfi við fjölda vísindafólks hér heima og erlendis. Þar ber fremsta að nefna dr. Bettinu Scholz hjá líftæknifyrirtækinu BioPol á Skagaströnd, en hún leiðir verkefnið í heild og er aðalleiðbeinandi Ashaniar ásamt Oddi Þór Vilhelmssyni, prófessor í Auðlindadeild HA. Nánar um viðburðinn hér

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða - Umsókn 2025

Sveitarfélagið sótti um í Framkvæmdasjóð Ferðamannastaða í vikunni en sveitarfélagið hefur lagt ríka áherslu á að byggja upp aðgengilega ferðamannastaði í sveitarfélaginu. Slík verkefni skapa umgjörð fyrir fjölbreyttara atvinnulíf á Skagaströnd sem stuðlar að íbúafjölgun, uppbyggingu og blómlegu samfélagi. Í ár var lögð áhersla á verkefni tengd hafnarsvæði nánar tiltekið hönnun á Hafnarhúsi sem gestamistöð fyrir ferðamennsku samhliða deiliskipulagsvinnu fyrir höfnina og nærumhverfi. Vonumst við til þess að umsókn sveitarfélagsis hljóti brautargengi líkt og umsóknir sveitarfélagsins síðustu ár en samtals hefur sjóðurinn styrk verkefni á Skagaströnd um 68 m.kr. árin 2022-2024. Umsókn sveitarfélagsins má sjá hér

Hrekkjavaka á Skagaströnd

Það styttist í Hrekkjavöku sem fer fram 31. október næstkomandi! Þann 30. október verður graskersgerð í Höfðaskóla á milli 16:00 og 18:00. Börn verða að vera í fylgd með fullorðnum. Taka þarf með sér áhöld, skálar og grasker til að skera út og eru öll hjartanlega velkomin. 

Á Hrekkjavöku sjálfri þann 31. október verður svo gengið í hús í Grikk eða Gott og hægt er að skrá húsið sitt hér til þess að krakkarnir viti hvert þau mega koma. Gengið verður í hús milli 16:00-18:00.  Þökkum við Foreldrafélagi Höfaskóla og Höllu Maríu Þórðardóttir fyrir framtakið og vonumst til þess að þátttakan verði góð.

Byrjendanámskeið í Bridge

Stefnt er að því að halda byrjendanámskeið í Bridge á Skagaströnd ef næg þátttaka fæst! Áhugasamir geta haft samband við Ingiberg Guðmundsson í síma 892-3080 fyrir 25. október til að skrá sig. 

Krílasport

Við minnum svo á Krílasportið sem er alla laugardaga í íþróttahúsi frá 10-11. Krílasportið er fyrir börn á aldrinum 0-5/6 ára og því miður er ekki í boði að hafa eldri systkini með þar sem það getur verið mjög truflandi fyrir krílin. 

 

Sveitarstjóri