Ásgarður
Framkvæmdir við Ásgarð ganga vel. Búið er að reka niður 76 plötur og góður gangur í verkinu. Eftir áramót verður restin af verkinu boðin út en slá þarf upp mótum, járnbinda og steypa þekju, leggja ídráttarrör og vatnslagnir ásamt uppsetningu á tenglaskápum.
Ránarbraut
Bygging húsa á Ránarbraut gegnur prýðilega og eru húsin farin að taka á sig mynd en byrjað var að reisa veggi í fyrstu húsunum fyrir helgi.
Hraðhleðslustöð
Uppsetning á hraðhleðslustöð við Olís planið hefur lengi verið í bígerð en Ísorka áætlaði að reisa stöðina fyrir haustið. Því miður fór það svo að ákveðið var að forgangsraða uppsetningu á hraðhleðslustöð í Varmahlíð þar sem umferðarþungi er meiri um það svæði og verður sú stöð vonandi opnuð fyrir áramót. Sveitarfélagið hefur leitað leiða til þess að flýta uppsetningu á Skagaströnd með samningum við aðra aðila, en Ísorka er með einkaleyfi á uppsetningu stöðva á lóðum Olís. Við verðum því að bíða róleg eftir hraðhleðslustöðinni okkar sem stefnt er að því að setja upp næsta vor í góðu samstarfi við Ísorku.
Höfðaskóli
Það er alltaf eitthvað áhugavert að gerast á vettvangi Höfðaskóla en skólinn heldur úti fróðlegri og skemmtilegri heimasíðu þar sem hægt er að fylgjast með starfseminni og geta áhugasamir kynnt sér hana hér. Síðasti skóladagur fyrir jólafrí er á morgun 18. desember og verða litlu jólin haldin hátíðleg í skólanum kl. 17:00. Þá verður haldið upp í Fellsborg og borðaður hátíðarkvöldverður og dansað kringum jólatréð eins og venja er til.
Barnaból
Leikskólinn okkar Barnaból heldur einnig úti heimasíðu þar sem hægt er að fylgjast með starfinu. Síðuna má finna hér. Leikskólinn fer í jólafrí á aðfangadag og verður opnað aftur 27. desember. Lokað verður 30. desember og hefst skólastarf svo að nýju 2. janúar 2025. Foreldrar eru hvattir til þess að láta vita ef börnin verða í fríi 27. desember.
Foreldrafélag Barnabóls mun laugardaginn 21. desember standa fyrir jólastund í Krílasporti á hefðbundnum tíma kl. 10:00 í íþróttahúsi Skagastrandar. Við hvetjum alla með börn á leikskólaaldri til þess að mæta og eiga skemmtilega stund saman en fregnir herma að nokkrir jólasveinar muni koma að heimsækja krílin.
Samstarf í Austur-Húnavatnssýslu
Síðustu vikur hefur verið unnið að slitum á samstarfsverkefnum sveitarfélagana í Austur-Húnavatnssýslu en löngum hefur verið samstarf um ýmis menningarverkefni, félags- og skólaþjónustu sem og tónlistarskóla. Skipuð var skiptastjórn vegna slitanna og í henni sitja Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagastrandar, Halldór Gunnar Ólafsson oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar, Pétur Arason sveitarstjóri Húnabyggðar og Grímur Rúnar Lárusson 1. varaforseti sveitarstjórnar Húnabyggðar. Vinna við slitin hefur gengið vel en skiptastjórn hefur notið liðsinnis KPMG við vinnuna. Er það yfirlýst markmið að ekki verði rof á þjónustu við íbúa við þær breytingar sem framundan eru. Stærstu breytingarnar fela í sér að Sveitarfélagið Skagaströnd mun taka yfir rekstur tónlistarskóla og Húnabyggð taka yfir rekstur félagsþjónustunnar. Þjónustusamningar verða gerðir á milli sveitarfélaganna í tengslum við verkefnin.
BioPol
Nýlega birtist ný grein í vísindatímaritinu Marine Drugs eftir starfsfólk BioPol og Háskólans á Akureyri um þróun aðferða til að hámarka nýtingu á kollageni úr grásleppuhvelju. Framkvæmdastjóri Biopol, Halldór Gunnar Ólafsson, segir þarna vera möguleg tækifæri til vinnslu. Fyrirtæki í Póllandi er nú með heit- og kaldreykta grásleppu héðan til skoðunar. Meira má lesa um verkefnið á heimasíðu Fiskifrétta hér.
Hólanes Restaurant and Bar
Hólanes opnaði aftur eftir hlé í lok nóvember. Opið er mánudaga til föstudaga milli 11:00 og 14:00 og aftur milli 17:00 og 22:00 og laugardaga milli 17:00 og 22:00. Lokað verður á sunnudögum. Boðið er upp á ýmsa rétti í hádeginu, hátíðardrykki og enska boltann. Hægt er að kynna sér það sem er í boði á facebook síðu þeirra hér.
Harbour
Harbour hefur boðið upp á pizzur í take away síðustu fimmtudaga við góðar undirtektir íbúa. Það er síðan alltaf eitthvað líf og fjör hjá þeim og þann 27. desember næstkomandi kl. 21:00 verður boðið upp á Tónlistarbingó með Klöru sem enginn verður svikinn af. Það verða skemmtilegir vinningar í boði en miðaverð er 1500 krónur. Nánar á facebook síðu Harbour hér.
Jólastund í Hólaneskirkju
Á aðfangadag jóla verður boðið upp á jólasamveru í Hólaneskirkju kl. 14:00. Sr.Edda Hlíf leiðir stundina og kirkjukórinn syngur jólasálma. Eftir stundina verður boðið upp á heitt súkkulaði með rjóma og piparkökur. Ungir sem aldnir eru hvattir til að koma og eiga notalega stund saman. Eru öll hjartanlega velkomin.
Sveitarstjóri