Nes Listamiðstöð hefur verið starfrækt frá árinu 2008 og hefur gengið í gegnum ýmislegt í rekstri sínum frá stofnun. Það er vissulega eðlilegt að ný starfsemi geti átt erfitt uppdráttar fyrstu árin og ákveðið gleðiefni að á síðustu tveimur árum hefur verið meiri stöðugleiki í rekstri listamiðstöðvarinnar og ánægjulegt að segja frá því að undanfarin þrjú ár hefur hún skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Horfur eru einnig nokkuð góðar því allt komandi ár er að mestu fullbókað.
Fasteignakaup
Í sumar var tekin nokkuð stór stefnumarkandi ákvörðun þegar stjórn félagsins samþykkti að kaupa efri hæð Fellsbrautar 2. Kaupin voru gerð til að hýsa þá listamenn sem eru gestir Nes Listamiðstöðvar á hverjum tíma. Kaupin voru fjármögnuð með eigin fé og lántöku í Landbankanum. Stjórn telur að þessi ráðstöfun muni létta rekstur félagsins m.a. í ljósi þess að sagt hefur verið upp leigu á þremur íbúðum sem áður voru notaðar í þessum tilgangi.
Stefnumótunarvinna/fundarboð
Stjórn Nes Listamiðstöðvar hefur einnig ákveðið að ráðast í stefnumótun fyrir listamiðstöðina. Njörður Sigurjónsson sérfræðingur frá Háskólanum í Bifröst hefur verið ráðinn til þess að stjórna þeirri vinnu. Markmið stefnumótunarinnar er í raun að greina núverandi hlutverk félagsins og marka því stefnu til komandi ára. Haldinn hefur verið einn undirbúningsfundur með stjórn félagsins en fimmtudaginn 12. nóvember nk. er fyrirhugað að halda opinn fund um málið. Þar býðst öllum að koma sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eða lýsa skoðun sinni á starfsemi félagsins. Fundurinn verður auglýstur nánar þegar nær dregur en stjórn bindur miklar vonir við að fólk hafi áhuga á að taka þátt í þessari vinnu.
Stjórn Nes listamiðstöðvar þakkar þeim mörgu sem hafa beint og óbeint stutt við þetta óvenjulega verkefni og þannig hjálpað til að gera það að frumkvöðlaverkefni sem litið er til víða um land.
Fh Nes Listamiðstöðvar
Halldór Gunnar Ólafsson
Stjórnarformaður