Ólafur Bernódusson var ráðinn í 50% starf hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Skagaströnd 1.september sl. Að ráðningu hans stóðu sameiginlega Rannsóknarsetur HÍ, Sveitarfélagið Skagaströnd og Farskóli Norðurlands vestra.
Starfssviðið hans er að sjá um ljósmyndasafn Skagastrandar, flokka það og gera aðgengilegt á netinu, stuðla að aukinni starfsemi Farskólans á Skagaströnd auk þess að vera til taks sem náms- og starfsráðgjafi fyrir fólk á starfsvæði Farskólans. Einnig á Ólafur að vinna ýmis tilfallandi störf fyrir Rannsóknarsetrið.
Ljósmyndasafnið
Ljósmyndasafn Skagastrandar er allmikið að vöxtum eða kringum 12000 myndir. Um er að ræða ljósmyndir á pappír bæði litmyndir og svart/hvítar myndir, mikið safn af filmum af mörgum gerðum og slidesmyndir. Safnið vex hratt því velunnarar þess utan úr bæ færa því gjarnan myndir, annað hvort til eignar eða til afnota með leyfi til að setja þær á ljósmyndavef Skagastrandar. Allmargir hafa líka komið í heimsókn og/eða sent inn athugasemdir og leiðréttingar um myndir sem komnar eru á netið. Eru þeim öllum færðar þakkir fyrir þeirra framlag, sem er safninu ómetanlegt.
Vinnan við safnið felst í því að skanna myndir inn í tölvu og setja þær síðan inn á vef ljósmyndasafnsins með réttum upplýsingum um hverja mynd. Einnig í flokkun myndanna og varðveislu þeirra til frambúðar. Þá er það líka í verkahring starfsmannsins að reyna að stækka safnið með útvegun eldri mynda frá Skagaströnd, hvar sem hægt er að ná í þær. Þess vegna hvetjum við fólk til að koma með myndirnar sínar á safnið ef það vill leyfa að eitthvað af þeim birtist á ljósmyndavef Skagastrandar.
Farskólinn
Farskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki þjónar símenntun á svæðinu frá Hrútafirði og austur í Fljót í Skagafirði. Farskólinn stendur fyrir margs konar styttri námskeiðum auk námskeiða sem taka allt að tveimur vetrum. Þess utan býður Farskólinn upp á ýmis konar þjónustu við fólk sem er í námi í öðrum skólum eða hefur hug á að hefja nám. Farskólinn vinnur í samstarfi við samtök atvinnulífsins enda er markhópur skólans fyrst og fremst fólk sem er komið út á vinnumarkaðinn.
Allmörg ár eru síðan námskeið á vegum Farskólans hefur verið haldið á Skagaströnd þó einstaklingar frá Skagaströnd hafi á því tímabili stöku sinnum sótt námskeið skólans sem haldin hafa verið annars staðar á svæðinu. Nýlega lauk þó 40 stunda spænskunámskeiði á Skagaströnd þannig að nú eru átta Skagstrendingar búnir að taka fyrstu skref til að verða sjálfbjarga á þessu gríðarlega útbreidda tungumáli. Byrjendanámskeið í tölvum fyrir eldri borgara með 13 þátttakendum hefur staðið yfir nú í janúar.
Bókasafn Rannsóknarsetursins
Rausnarleg bókagjöf erfingja Ögmundar Helgasonar barst Rannsóknarsetrinu í lok nóvember, merkt og flokkað af starfsmönnum Landsbókasafnsins. Bókasafnið er allmikið að vöxtum og er nú búið að koma því fyrir í hillum á réttan hátt og er óhætt að segja að með þessari viðbót við fyrra safn Rannsóknarsetursins, frá erfingjum Halldórs Bjarnasonar, sé safnið orðið mjög gott sérstaklega hvað varðar sagnfræðilegt efni.
Allir velkomnir
Rannsóknarsetrið er opið alla virka daga fyrir hádegi, milli klukkan 8:00 til 12:00. Á þeim tíma eru allir meira en velkomnir til dæmis til að skoða ljósmyndir og aðstoða Ólaf við að þekkja fólk og annað sem á þeim er. Þá er líka velkomið að koma til að setjast niður og kíkja í bók eða tímarit af safninu, eða bara til að spjalla og skoða aðstöðuna sem Rannsóknarsetrið og Námsstofan bjóða upp á.