Gestabók hefur verið komið fyrir í Spákonufellshöfða. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að kanna fjölda þeirra sem leggja leið sína um Höfðann.
Á vegum Sveitarfélagsins Skagastrandar og samtakanna The Wild North er í gangi rannsókn á áhrifum ferðaþjónustu á villt dýra- og fuglalíf sem og að vekja áhuga ferðamanna á ósnortinni náttúru.
Náttúrustofa Norðurlands Vestra hefur tekið að sér að rannsaka fuglalífið í Höfðanum og annast Þórdís Bragadóttir, líffræðingur, um framkvæmdina.
Ekki er einfalt að telja ferðamenn í Spákonufellshöfða og er því talið ódýrast og hagkvæmast að hafa gestabók staðsetta á áberandi stað og hvetja fólk til að rita nafn sitt í hana. Við botn Vækilvíkur hefur því verið komið fyrir litlum kassa og er gestabókin í honum.
Þar er einnig könnun á vegum The Wild North um umhverfis- og nátturuverndarmál. Hún er liður í að afla upplýsinga um viðhorf ferðafólks til friðaðra svæða og sjálfbærrar ferðamennsku. Náttúrutengd ferðaþjónusta er ein af markmiðum The Wild North og tilgangurinn að fjölga ferðamönnum sem áhuga hafa á því að skoða fugla- og dýralíf í ósnortnu umhverfi.
Vaxtarsamningur Norðurlands Vestra hefur styrkt framkvæmd rannsóknarinnar og annarrar svipaðrar tengdum selaskoðunum á Vatnsnesi.