22.12.2003
Nýlega afhenti stjórn Sjúkrasjóðs Höfðakaupstaðar
heilsugæslunni á Skagaströnd nýtt tæki að gjöf. Tækið
er Lazer-tæki; Thor DD Lazer Therapy Unit, sem nýtist
vel við verkjameðferð, einkum fyrir gigtarsjúklinga.
Sjúkrasjóður Höfðakaupstaðar var stofnaður 1947 innan
kvenfélagsins Eining á Skagaströnd.Hefur sjóðurinn
verið iðinn við að gefa ýmis konar tæki til
heilsugæslunnar frá stofnun hans. Meðal annars eru
nánst öll tæki sem notuð eru á heilsugæslunni til
þjálfunar og endurhæfingar tilkomin sem gjafir frá
sjóðnum. Einnig hefur sjóðurinn gefið nokkuð af
tækjum í sjúkrabíl Rauðakrossdeildarinnar á
Skagaströnd í gegnum árin. Aðal tekjulind
Sjúkrasjóðsins er sala minningarkorta en þess utan
hafa konurnar sem starfa fyrir hann fengið styrki frá
fyrirtækjum og einstaklingum.
Að þessu sinni fékk heilsugæslan lazertæki frá
sjóðnum en að sögn Angelu Berthold sjúkraþjálfara
nýtist tækið vel við verkjameðferð, til húðlækninga og
svo hefur það örvandi áhrif á frumumyndun og er því
græðandi. Þá er ótalinn sá kostur tækisins að hafa
bólgueyðandi áhrif því að meðferð með því hefur örvandi
áhrif á blóðstreymi til bólginna vöðva. Angela þakkaði
kvenfélaginu og Sjúkrasjóðnum fyrir gjöfina og segist
nú þegar hafa reynslu fyrir að tækið nýtist vel á
heilsugæslunni.
ÓB.