Það var stór hópur fólks sem fyllti Rannsóknarsetur HÍ í Gamla kaupfélaginu í gærkvöldi en alls mættu um 70 manns á aldrinum 10-80 ára.
Sýndar voru þrjár myndir þar sem starfsemi og mannlíf á vestanverðum Skaga fyrr á tímum var í fyrirrúmi.
Fyrsta myndin var hluti af heimildarmynd um Austur-Húnavatnssýslu sem tekin var upp á árunum 1951-1955 en í þeim hluta var sjónum beint að byggðinni frá Laxá á Refasveit og út á Skagatá.
Í annarri myndinni var viðtal sem Ernst Berndsen tók við Benedikt Guðmundsson bónda á Saurum um 1980.
Síðasta myndin fjallaði um starfsemina í Hólanesfrystihúsinu á árunum 1985-1990 og þær breytingar sem þá urðu á aðstöðu og tækjakosti.Mátti oft sjá bros á andliti áhorfenda er þeir litu sjálfan sig og aðra að störfum í frystihúsinu fyrir aldarfjórðungi.
Það var Gleðibankinn á Skagaströnd sem stóð fyrir þessu bíókvöldi. Í Gleðibankanum eru innstæður mældar í brosum og því ljóst að þær hafa vaxið töluvert við þennan viðburð.