Unglingar úr Húnaþingi náðu góðum árangri á frjálsíþróttamóti sem haldið var í Boganum á Akureyri um síðustu helgi. Alls tóku 25 unglingar þátt í mótinu og er óhætt að segja að þeir hafi staðið sig með miklum sóma enda stigu þeir alls 20 sinnum á verðlaunapall og þar af sjö sinnum sem sigurvegarar. Má þar nefna að þeir Stefán Velemer, Sæþór Bragi og Magnús Örn fögnuðu þreföldum sigri í kúluvarpi 11-12 ára. Torfi Friðriksson fagnaði sigri í 60 metra hlaupi á glæsilegum tíma í sinnu fyrstu keppni í hlaupi á ævinni. Hilmar Þór Kárason sigraði bæði í 60 metra og 800 metra hlaupi. Sigmar Guðni Valberg sigraði bæði hástökk og kúluvarp. Fyrir utan þennan góða árangur voru margir að bæta sinn persónulega árangur.
Húnvetnsku unglingarnir komu svo sannarlega á óvart á mótinu og var umtalað hversu öflugan hóp þjálfari liðsins, Guðmundur Þór Elíasson væri með og hversu gott starf væri unnið í Húnaþingi á sviði frjálsíþrótta. Það vekur þó athygli að aðeins eru tvær frjálsíþróttaæfingar í sýslunni á viku en flestir þeir sem tóku þátt í mótinu á Akureyri æfa frjálsar íþróttir 4-5 sinnum í viku.
Óhætt að segja að Húnvetningar eigi mikið af mjög efnilegu frjálsíþrótta fólki sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni ef rétt verður haldið á málum. Frekari úrslit úr mótinu má finna á www.fri.is.
Heimild og myndir frá Húnahorninu.