Háagerðisvöllur á Skagaströnd kom mér mjög á óvart er ég sá hann fyrst árið 2002, er ég vann að bók minni, Golfhringur um Íslandi. Hér er um að ræða mjög heilsteyptan golfvöll sem var í mjög góðu ástandi síðast þegar ég sá hann. Upphaf hans er fremur óvenjulegt, par 3-hola þar sem flötin sést ekki frá teig (sjá mynd), en einhverra hluta vegna fellur hún í kramið.
Þetta segir golfvallahönnuðurinn Edwin Roald Rögnvaldsson í viðtali við mbl.is. Hann er jafnframt höfundur bókarinnar Golfhringur um Ísland sem kom út árið 2002.
Edwin segir að 18 holu vellir hér á landi séu um 14 talsins. Þeim hafi heldur verið að fjölga nokkuð síðustu árum, aðallega með stækkun valla sem fyrir voru. Ef litið er á velli í þessum flokki og horft til gæða eða náttúrlegs umhverfis segir hann að Vestmannaeyjavöllurinn sé alltaf í nokkrum sérflokki í sínum huga.
„Umhverfið er auðvitað einstakt. Hann er líka oftast í mjög góðu standi enda fljótur til á vorin og Eyjamenn staðið sig vel í að halda honum við.“
Edwin segist þó fyrir sitt leyti ekki síður vera hrifinn af minni völlunum. „Að ýmsu leyti eru það okkar bestu golfvellir enda þótt klúbbarnir séu oft á tíðunum með litla peninga og vanti jafnvel tæki til að annast þá, en í grunninn eru þarna margir áhugaverðustu vellirnir og leynast á hinum ólíklegustu stöðum.“
Verkefnin hér á landi hafa verið af ýmsum toga, endurhönnun valla eða brauta, stækkanir og fleira af því tagi. „Golfvöllur er aldrei „tilbúinn“ í vissum skilningi því að hann er lifandi vistkerfi, ert alltaf að breytast og svo breytast forsendur, til dæmis vegna fjölgunar í klúbbunum. Þannig að það er búinn að vera rosalegur kraftur í þessu, ekki síst úti á landi. Strax eftir bankahrun auglýsti ég að ég væri tilbúinn að gefa þessum smærri klúbbum 100 vinnutíma á þessu ári og fékk mikil viðbrögð. Eitthvað um 20 aðilar sóttu um og ég hef verið mikið á ferðinni bæði vestur og norður. Marga þessara valla hafði ég ekki séð frá því að ég gaf út Golfhringinn um Íslands 2002. Það var bara mjög gaman að sjá hvað hafði gerst á þessum sjö árum og hvað mikill hugur er í mönnum.
Eins og áður segir er einn af þeim tíu golfvöllum sem Edwin nefnir er Háagerðisvöllur við Skagaströnd. Það er engin tilviljun og þarf ekki heldur neina sérfræðinga til að njóta þess að leika golf á þessum skemmtilega velli.