Annað hvert ár efnir Rauði kross Íslands til landssöfnunarinnar Göngum til góðs til styrktar alþjóðaverkefnum sínum. Nú blæs Rauði krossinn aftur í lúðra og efnir til sjöttu landssöfnunarinnar laugardaginn 2. október fyrir starf félagsins í Afríku.
Söfnunin er annars eðlis en flestar skyndisafnanir sem Rauði krossinn efnir til eins og í kjölfar neyðaraðgerða vegna náttúruhamfara eða átaka. Valin eru langtímaverkefni sem oft er erfitt að finna fjármagn fyrir.
Í söfnuninni í ár hefur Rauði krossinn sett á oddinn verkefni félagsins í Malaví fyrir börn og ungmenni sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis, og Síerra Leóne þar sem um er að ræða verkefni fyrir stríðshrjáð börn og endurhæfingu barnahermanna. Samstarfið við Rauða krossinn í Malaví hófst árið 2002 með söfnunarfé úr Göngum til góðs það ár og við Rauða krossinn í Síerra Leóne í kjölfar landssöfnunarinnar árið 2004.
Mikið hefur áunnist í verkefnum Rauða krossins í Malaví og Síerra Leóne á þessum árum og samstarfið eflst og dafnað vegna langtímaskuldbindingar Rauða kross Íslands. Með því að sýna samstöðu og samhug með systurfélögum okkar í þessum löndum getum við saman tekið þátt í að skapa börnum í Afríku betri lífsskilyrði.
Með söfnuninni Göngum til góðs vill Rauði krossinn gefa fólki í landinu tækifæri til að gefa af sér, ekki einungis með því að gefa fé heldur einnig til að sameinast um brýnt málefni og sýna samhug sinn í verki með því að gerast sjálfboðaliði eina dagsstund. Þeir sem ganga hús úr húsi gegna ákaflega mikilvægu hlutverki, en það væri til lítils ef ekki væru einhverjir heima til að taka á móti þeim og stinga fé í baukinn.
Hægt er að skrá þátttöku í síma: 897-2884 eða á bogig@simnet.is, vinsamlegast skráið fyrir kl: 18:00 miðvikudaginn 29. september.
Það er von okkar að sem flestir sýni stuðning í verki og Gangi til góðs laugardaginn 2. október.
R.K.Í
Skagastrandardeild