Íslenskt gæðagospel – Tónleikar á Skagaströnd
Kór Lindakirkju í Kópavogi, undir stjórn Óskars Einarssonar, heldur tónleika föstudaginn 17. október kl. 20:30 í Hólaneskirkju Skagaströnd. Í fréttatilkynningu frá kórnum kemur fram að kórinn hafi staðið í stórræðum í sumar og tekið upp nýja plötu sem ber heitið Með fögnuði.
Um er að ræða gospeltónlist sem nær öll er samin af starfsfólki Lindakirkju, Áslaugu Helgu Hálfdánardóttur, Óskari Einarssyni, tónlistarstjóra og sóknarprestinum sr. Guðmundi Karli Brynjarssyni.
Kór Lindakirkju syngur öll lögin á plötunni ásamt einsöngvurum úr röðum kórsins. Hljóðfæraleikur á plötunni er í höndum Óskars Einarssonar, Sigfúsar Óttarssonar, Friðriks Karlssonar og Jóhanns Ásmundssonar.
Aðgangseyrir á tónleikana er enginn en platan Með fögnuði verður seld að tónleikum loknum.